145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

öryggi ferðamanna.

[15:20]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við hljótum öll að vera sammála um að vilja að ferðamenn séu öruggir hér og að þeim líði eins og þeir séu öruggir hér. Það er þess vegna hörmulegt að hér verði slys sem eru þess eðlis að koma hefði mátt í veg fyrir þau. Að mörgu leyti eru það sömu hættur sem steðja að ferðamönnum og að Íslendingum almennt. Það eru því að stórum hluta sömu atriðin sem auka öryggi ferðamanna og heimamanna. Aukið umferðaröryggi, samgönguinnviðir og vegakerfið eru þar gott dæmi. Bætt öryggi ferðamanna og bætt öryggi heimamanna fer þess vegna að mörgu leyti saman.

Mér finnst þess vegna gríðarlegt áhyggjuefni að samgönguáætlun sé eins og hún er vegna þess að hún felur ekkert annað í sér en áætlun um vanrækslu á lykilinnviðum samfélagsins og samgöngukerfisins. Það sama gildir um ríkisfjármálaáætlun. Mér finnst vel til fundið hjá hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur að ræða öryggismál ferðamanna í tengslum við ríkisfjármálaáætlun. Hæstv. ráðherra finnst, heyrist mér að minnsta kosti, að hluta af umræðunni hér ætti að vera beint að öðrum ráðherra. En ég er ekki sammála vegna þess að til þess að ná árangri í öryggismálum þarf að vinna bæði almennt og sértækt. Hér þarf að vinna þvert á ráðuneyti. Ríkisfjármálaáætlun og samgönguáætlun ættu þar að vera plögg sem hæstv. ráðherra ferðamála lætur sig varða auk þess sem hún á að vinna sértækt að því sem snýr að málaflokki hennar. (Forseti hringir.) Langar mig sérstaklega að nefna merkingar, þ.e. að hafa þær þannig úr garði gerðar að ferðamenn skilji þær.