145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

öryggi ferðamanna.

[15:25]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðuna.

Of seint er að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í hann. Við vorum engan veginn undir það búin að fá allan þann fjölda ferðamanna til landsins eins og raunin varð. Í stað þess að leggja strax í áætlunargerð, t.d. hvernig við ætluðum að stýra þunga ferðamennskunnar um landið allt og vernda landið okkar um leið, þá settum við enn meiri áherslu á að búa til tækifæri fyrir ferðaþjónustu og afþreyingu fyrir ferðamenn sem hingað koma. Það er auðvitað vel að nýta tækifærin og skapa atvinnu en í þeirri áherslu gleymdum við alveg aðhaldi að allri nýsköpun og þeirri atvinnustarfsemi sem upp af þessu spratt, svo að maður tali nú ekki um löggæslu og öryggi, bæði ferðamanna og heimamanna.

Fyrst var ferðamannatímabilið yfir hásumarið en með meiri markaðssetningu fór það að teygja sig yfir veturinn líka. Norðurljósaferðir, vélsleðaferðir, skíði og fleira sem þýðir að við þurfum ekki bara að búa til betri göngustíga með handriðum til að bæta öryggi ferðamanna, það er svo margt annað. Eru vegir í lagi? Hvernig er þjónustan við þá? Hverjar eru upplýsingarnar sem ferðamennirnir fá? Hvernig eru bílarnir sem þeir aka útbúnir? Hafa þessir einstaklingar einhvern tímann keyrt í snjó og hálku áður? Kunna þeir að lesa í veðrið og aðstæður úti í náttúrunni? Eru björgunarsveitirnar tilbúnar að takast á við þetta verkefni með okkur? Er lögreglan nógu vel útbúin og undirbúin?

Ég vil taka undir með hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni sem talaði áðan, það er ekki allt á herðum hins opinbera. En ef við ætlum að auka öryggi ferðamanna og ætlum að halda áfram að leggja áherslu á að fá þá til landsins og ferðast um, þá verðum við að undirbúa okkur undir það. Eins og ráðherrann fór hér yfir þurfum við að halda áfram með öll þau góðu verkefni sem hafa farið af stað.

Í dag höfum við ekki töluna yfir fjölda gistirýma eða bílaleigubíla og síðast í morgun var í fréttum að við værum að týna tölunni á hestaleigum á landinu og hrossum sem í það er notað. Engar reglur eru um smábíla með svefnaðstöðu, hvaða staði þeir nota þegar lagst er til svefns og nær ómögulegt er að innheimta sektir sem skrifast á bílaleigubíla gegnum hraðamyndavélar. Því segi ég að ekkert af þessu er nýtt vandamál. En þó hefur verið tekið tillit til þessa vanda við vinnu nýrrar löggæsluáætlunar og eftirlitsstofnanir (Forseti hringir.) hafa verið að fullnýta úrræði sín. Núna er það okkar að halda áfram og byrgja brunninn.