145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

742. mál
[15:54]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Það er ánægjulegt að heyra að það sé jákvæð hugsun gagnvart því að hafa námið á landsbyggðinni.

Ég hef velt þessu töluvert fyrir mér. Þá er ég líka að hugsa um að þetta væri lítill skóli, þetta eru fáir nemendur. Og ef þetta er lítil eining, ef hér er verið að tala um kannski 40 nemendur, þá væri kannski skynsamlegt að mörgu leyti að náminu væri fyrir komið í litlum skóla sem næði að halda vel utan um svona viðkvæmt nám eins og lögreglunámið er.

Ég tek undir það og ég er afskaplega ánægð með að námið er á þessari leið, þ.e. að fara á háskólastig. Mig langar samt aðeins að nefna starfsnámið, af því að mér finnst það ekki koma fram hér, það er í rauninni bara sett fram að það eigi að vera biðlaunakostnaður sem eigi að greiða þeim starfsmönnum sem nú eru við Lögregluskólann, að ekki er talað um það beinlínis hvernig starfsnámið eigi að fara fram. Það á bara að vera undir mennta- og þróunarsetrinu í einhverju samstarfi.

Nú vitum við að okkur skortir lögreglumenn og eigum töluvert í land með að uppfylla það markmið sem stefnt er að. Því spyr ég hvort þeir sem hafa verið að sinna þessu, m.a. þessu þjálfunarstarfi í Lögregluskóla ríkisins, sem er væntanlega búið að segja upp eða a.m.k. gert ráð fyrir því, hvort þeir gætu verið til þess fallnir að sinna þessu. Þá er líka bara að hugsa um praktíkina í þessu. Hvaðan eigum við að ná í mannskapinn til að sinna þessu? Við heyrum jú mjög reglulega að það vantar fólk til starfans. Við erum að útskrifa núna 16, svo verða væntanlega ekki útskrifaðir neinir í tvö ár eða um það bil og þá vantar endurnýjun. Af því hefur auðvitað Lögreglufélagið áhyggjur. (Forseti hringir.) Þetta eru vangaveltur mínar.