145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

742. mál
[15:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi skipulag námsins hjá setrinu þá er það náttúrlega akkúrat það sem er verið að hnoða saman núna. Hugsunin er sú að námið sjálft fari fram hjá lögregluembættunum sjálfum, þ.e. að lögreglumennirnir geti sótt þá þekkingu sem næst sér. Það er hugsunin. Það er hugsunin að hafa þetta dreift. Ég vona að það muni ganga. Ég held að það sé afar mikilvægt að við náum þeim árangri. Ég mundi gjarnan vilja líta á það þannig, jafnvel þótt setrið sé eitt og svo námið annað, að það sé, hvað á ég að segja, rauður þráður þar á milli.

Varðandi Lögregluskólann og þá starfsmenn sem þar eru þá get ég ekki svarað öðruvísi núna en að þar er sú vinna í gangi að skipuleggja hvernig best er að gera þetta. Við vitum auðvitað að þar er mjög gott fólk sem hefur þjónað skólanum og lögreglunni mjög vel. Ég efa ekki að þar er mikil þekking fyrir hendi sem við megum ekki glutra niður.

Þess vegna held ég að þegar við gerum breytingar af þessu tagi þá þurfum við að hugsa til framtíðar en líka nýta okkur það sem best er af því sem við höfum reynslu af.