145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

742. mál
[16:13]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að lögreglunámið hefur verið eyland. Eins og hæstv. innanríkisráðherra kom inn á í ræðu sinni hefur menntunin nýst mjög illa ef menn hafa ætlað sér í annað eða meira nám. Einingarnar telja ekki þar inn. Eins og segir í markmiðum frumvarpsins eiga lögin að tryggja að menntun og þjálfunarmál lögreglunnar geti á hverjum tíma nýst við þau mikilvægu verkefni sem til lögreglunnar koma og tryggja öryggi okkar sem borgara og í rauninni þá hagsmuni sem ríkið hefur undir.

Eðli lögreglustarfsins er orðið allt annað í dag með breyttum tíma. Það er harðari heimur í dag og margt sem þrífst, t.d. á internetinu, peningasvindl, hakkarar, mansal, vændi og smygl. Síðast í morgun voru fréttir héðan af Íslandi um að til séu vefsíður sem bjóða m.a. betra aðgengi að fíkniefnum, lyfjum, vændi og sölu þýfis.

Þau stakkaskipti sem hafa orðið kalla á miklu sérhæfðari og meiri menntun. Það hefur komið upp í umræðum um þetta frumvarp um tilfærslu námsins hvort rétt sé að setja það inn í háskóla sem ég tel vera. Í framhaldsskóla er ekki margt sem bætir við almenna menntun. Það er gott að nemendur séu búnir með grunnáfangana, þeir taki þá íslensku, stærðfræði og það sem þarf í menntaskóla og séu einnig betur mótaðir og vissir um hvað þá langar að gera í framhaldi af því.

Háskólanámið mun þá nýtast þeim betur í þjálfun og sérhæfingu og fyrir þá mörgu anga starfssviðsins sem hafa orðið til. Við erum með nýjar tegundir af glæpum sem eru miklu víðfeðmari og harðari og með því að sérhæfa einstaklinga í því meðfram lögreglunámi og þjálfun getum við fengið miklu öflugri hóp.

Við gætum einnig nýtt okkur tengingu milli annarra sviða í þeim háskóla sem námið mun falla inn í, svo sem við sálfræði, íþróttafræði, hjúkrunarfræði og lögfræði. Starfshópurinn kallaði einmitt eftir því. Hann sagði að enginn vafi léki á að núverandi lögreglunámi væri ábótavant, sérstaklega á sviði annarra faga sem tengjast samt sem áður inn í.

Hv. þm. Bjarkey Olsen kom inn á fjarnámið áðan. Ég vil meina að fjarnám sé framtíðin, að nemendur eigi að geta valið sér nám algjörlega óháð búsetu og sæki þá frekar ákveðnar innilotur í skólunum í stað þess að sitja þar dag eftir dag, oft langt frá fjölskyldu sinni og skili sér ekki aftur út í smærri sveitarfélögin sem við höfum síðan fundið fyrir að erfitt er að fá lögreglumenn til að starfa á. Það var ánægjulegt að heyra hæstv. ráðherra sýna því áhuga.

Hv. þm. Vilhjálmur Árnason kom inn á það í ræðu sinni áðan að það er frekar einsleitur hópur sem sækir í námið í dag en einmitt með betra samstarfi á milli mismunandi sviða í háskólanámi getum við fengið hóp sem er betur undir það búinn að takast strax á við þessa nýju glæpi, þ.e. þeir þurfi ekki að koma óslípaðir úr náminu í dag og vera hent beint í djúpu laugina, að þjálfa þá upp í að takast á við vandann, að þeir séu með þekkingu til þess þegar þeir koma úr náminu.

Eins tek ég undir það með honum að við höfum haft miklar áhyggjur af því að það sé frekar óreynt og ungt fólk sem skipast í sumarafleysingastörf hjá lögreglunni. Þetta er oft fólk sem er að safna sér reynslu með t.d. lögfræðinámi. Þarna gætu þá nemendur sem væru búnir með ákveðinn grunn unnið upp í þá starfsreynslu sem þeir þurfa með náminu. Þannig gætum við náð að tengja verklega og bóklega námið miklu betur saman, að það séu ekki bara stöðluð próf sem þeir taka meðan þeir eru í skólanum og komi síðan beint úr því út í djúpu laugina heldur séu þeir búnir að fá nasaþefinn af því hvað er í gangi og hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Þannig er kannski einmitt ekki verið að færa það inn í háskólann hvernig þeir eiga að kveikja á talstöð eða tilkynna hitt og þetta heldur læri þeir það í starfsþjálfun.

Ég er mjög ánægð að sjá frumvarpið komið hérna þrátt fyrir að maður hafi kannski verið skeptískur í upphafi þegar umræðan byrjaði um tilfærslu þessa náms. Eftir að hafa séð alla þá vinnu sem að baki þessu liggur og þörfina sem er komin, eftir að hafa talað við lögreglustjóra hringinn í kringum landið, varðstjóra og yfirmenn í lögreglunni sem hafa lýst fyrir manni hvers eðlis vandamálin eru sem þeir fást við í dag og hversu ör breytingin hefur orðið á síðustu tveimur áratugum skilur maður vel að þetta frumvarp sé hér til umræðu. Ég fagna því mjög og hlakka til að vinna það í allsherjar- og menntamálanefnd.