145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

742. mál
[16:19]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að taka til máls um breytingu á lögreglulögum og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þ.e. menntun lögreglu. Ég fagna því líka að þetta mál sé komið fram. Ég held að það sé löngu tímabært, eins og ég sagði áðan, og hið besta mál. Ég vona að við náum að afgreiða það fljótt og örugglega þannig að hægt verði að hefjast handa við að velja þann stað þar sem því verður best fyrir komið gagnvart fjöldanum og faglegheitunum sem hér er verið að reyna að færa námið enn frekar upp á sem er löngu tímabært.

Við erum búin að fjalla mikið um stöðu lögreglunnar yfirleitt og hér er vitnað til samantektar úr skýrslu starfshóps um innihald lögreglunáms, við höfum fjallað um skýrslu um löggæsluáætlun og öryggi og áðan vorum við að tala um öryggi ferðamanna og ýmislegt sem tengist lögreglunni beint og óbeint. Það er ástæða til að velta því aðeins upp í þessu samhengi og þá finnst mér, eins og ég sagði áðan, að í staðinn fyrir að greiða biðlaun ástæða til að nýta þá starfskrafta sem við höfum með hvaða hætti sem það yrði þá gert, t.d. í formi þess að samið yrði við þá sem eru í Lögregluskóla ríkisins í dag um að koma starfseminni af stað, m.a. í þessu mennta- og starfsþróunarsetri eða hvar annars sem það færi best. Ég held að við séum þarna með mikla þekkingu og mannauð sem við þurfum að varðveita.

Þá er vert að rifja upp að árið 2007 voru lögreglumenn á Íslandi 712 en í ár eru þeir 653. Í skýrslum frá embætti ríkislögreglustjóra er talað um að þeir ættu núna að vera í kringum 840 þannig að það er ljóst að enn vantar töluvert upp á að við höfum nægan mannafla til að hafa starfsemina með þeim hætti sem við kysum helst að gera og sem áætlanirnar hafa gengið út á, öryggisáætlunin og annað. Löggæslan er ein af grunnstoðum samfélagsins. Þjónustan við samfélagið er því miður ekki fullnægjandi eins og fram hefur komið, hvorki varðandi öryggi né margt annað. Þó að allir reyni að gera sitt besta í því vantar okkur mannskap, m.a. í ljósi aukins ferðamannastraums. Þess vegna finnst mér að við eigum að nýta þessa starfskrafta í staðinn fyrir að eyða milljónum í biðlaun. Sumir eiga stuttan tíma eftir og ég tel að það sé hægt að finna því farveg frekar en að ráða inn nýtt fólk, væntanlega, sem er þó ekki á hverju strái með viðeigandi menntun til að sinna þeim störfum sem mennta- og starfsþróunarsetrinu er ætlað að gera í þessu frumvarpi. Það er mjög umfangsmikið og mér finnst því ekki áætlaðir miklir fjármunir. Ég kem til með að spyrja svolítið um það þegar það kemur til nefndarinnar. Ég vil fá að vita hvað er á bak við þessar tölur því að mér finnst t.d. 13 millj. kr. í aðkeypta sérfræðiþjónustu, dvalar- og ferðakostnað, kostnað við rannsóknir, tæki og efni og húsnæðiskostnað afskaplega lítið, þegar við gerum ráð fyrir miklu meiri peningum eins og 36 millj. kr. í húsnæðiskostnað eingöngu við núverandi húsnæði lögregluskólans. Ég mun spyrja aðeins um það svo ráðuneytisfólkið viti af því.

Eins og rakið er í frumvarpinu fannst mér mjög umfangsmikið það sem setrinu er ætlað að gera. Það á að sjá um vísindalegar rannsóknir og hagnýtingu þeirra fyrir störf lögreglunnar. Það á að skipuleggja og hafa umsjón með verknámi og starfsþjálfun lögreglunema. Það á að sjá um að þjóna öllum löggæslu- og ákæruvaldsstofnunum í landinu og sjá um að endurmeta grunn- og framhaldsmenntun í breytilegu samfélagi, eins og hér er sagt, og huga að símenntun. Svo á það líka að vera tengiliður við þá sem vinna að ákæru- og löggæslustörfum og vera í samskiptum við fræðasamfélagið. Þetta er heilmikið. Það er verið að búa þetta til, þetta verður þróunarverkefni og þess vegna held ég að það væri líka afskaplega gott að hafa einhverja með reynslu og einhverja nýja þarna inni. Eins og ég hef sagt hef ég áhyggjur af því að við höfum ekki mannskapinn eða af honum að taka annars staðar frá.

Ég hef starfað sem náms- og starfsráðgjafi og bent nemendum á nám í Lögregluskóla ríkisins og hvað til þarf. Ég held að það hafi verið meginreglan undanfarið að nemendur hafi þurft að hafa stúdentspróf til að komast inn vegna þess að aðsóknin hefur verið umfram þessa 16. Það er hið besta mál, það er ágætt að nemendur séu orðnir örlítið eldri að mínu viti þegar þeir fara í svo mikið þungavigtarnám og starf sem því fylgir þannig að mér finnst að það hafi leitt það af sér að nemendur eru auðvitað búnir að læra meira og hafa þess vegna getað bætt við sig annars konar námi í framhaldinu í staðinn fyrir að þetta nám, eins og það er byggt upp nú, hefur ekki gefið það tækifæri. Því erum við að breyta og mér finnst það afskaplega gott.

Ég tek undir ályktun frá þingi Landssambands lögreglumanna um menntunarmálin. Hv. þingmaður á undan mér áðan talaði um að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því að það myndaðist eitthvert gap, en með leyfi forseta segir:

„Menntun lögreglu er grunnur hvers lögreglumanns til framtíðar innan stéttarinnar. Að færa lögreglunám á háskólastig og þar með lengja námið er afar gott skref. Það að leggja niður lögregluskólann í núverandi mynd er galið á meðan fyrsti árgangur lögreglumannsefna er í hinu nýja námi. Þrjú ár án endurnýjunar í stéttinni gengur einfaldlega ekki upp.“

Bókunin er lengri, en ég ætla ekki að lesa lengra.

Af samtali við lögreglufélagið skilst mér að 12 hætti á næstu tveimur árum, þ.e. tvisvar sinnum 12, og hverfi úr stéttinni þannig að auðvitað myndast gap. Ef 12 hætta og 16 koma inn erum við nánast með status quo. Árið 2017 bætast þá ekki við neinir, en við göngum út frá því að 40 sæki um og fara í námið. Ég veit reyndar ekki hversu margir hafa sótt um árlega til þess að geta sagt til um það hversu mörgum er vísað frá vegna þessara takmarkana upp á 16 manns, en hér er gert ráð fyrir að á næstunni útskrifist 40 en þá ekki fyrr en 2018. Ef ég hef skilið þetta rétt erum við búin að missa a.m.k. 12 og jafnvel 24 sem hætta á þessu tímabili. Það vantar þá inn í.

Ég held að það sé nokkuð sem við megum ekki við, en ég veit ekki hvort við getum leyst það með einhverjum öðrum hætti en ábendingar hafa verið um í þessum ályktunum og umsögnum sem hafa komið fram við vinnslu þessa máls.

Ég tek undir með hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni þegar hann talar um það sem vantar inn í Lögregluskóla ríkisins og hvað þetta nám á að færa nemendum í dag, þ.e. hvað varðar upplýsingar og kennslu um mannréttindi, að allir þeir sem fara í gegnum þetta nám, eins og kemur fram í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands, læri um kynjajafnrétti, mismun á grundvelli kyns, kynþáttar o.s.frv., að lögreglumenn þekki Istanbúl-samninginn, Evrópusamninginn og Lanzarote-samninginn. Þetta er allt mjög mikilvægt, sérstaklega núna þegar við stöndum frammi fyrir því að inn í landið okkar koma sífellt fleiri erlendis frá í gegnum alls konar leiðir sem krefst þess að fólk hafi fjölþættari nálgun á málin. Hér er líka tekið fram að æskilegt sé að fram fari fjölmenningarleg kennsla og fræðsla um málefni innflytjenda. Það held ég að sé líka hluti af því að gera námið enn betra og verði væntanlega haft að leiðarljósi.

Hér er ekki tekin afstaða til þeirra kjara sem þetta getur haft í för með sér en af því að ég er nýlega búin að fá svar um laun lögreglumanna fannst mér svolítið sérkennilegt að lesa eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Til lengri framtíðar má búast við að lögreglumenn vilji miða kjör sín við stéttir með sambærilega menntun á háskólastigi. Reynsla af svipuðum breytingum hjá öðrum starfsstéttum sýnir að slíkt verði tekið upp í kjaraviðræðum þegar fram líður.“

Svo er sagt að kjarasamningar lögreglumanna séu lausir vorið 2019 og sagt hvað hver prósenta í hækkun launa mundi þýða fyrir ríkissjóð, 58 millj. kr. á ári, væntanlega miðað við eins og þau eru nú. Miðað við þau svör sem ég fékk um laun og samanburð launa lögreglumanna eru þeir nú þegar langt undir og telja sig eðlilega vera það, sérstaklega eftir að þær upplýsingar lágu fyrir. Ég hef trú á því að þetta verði enn þá meira stökk þegar námið verður komið á háskólastig. Við getum ekki miðað við launin eins og þau eru í dag því að ég held að allflestir geti verið sammála um að þau séu allt of lág miðað við sambærilegar stéttir, ábyrgð og það sem lögreglan sinnir.

Hér er talað um vissa þætti lögreglustarfa í þjálfun innan lögreglunnar, valdbeitingaraðferðir, skotvopnaþjálfun, sértækar rannsóknaraðferðir og annað slíkt. Ráðherra sagði áðan að reynt yrði að gera sem mest af þessu, ef ég hef skilið rétt, á lögreglustöðvum þar sem því verður fyrir komið. Ég sé ekki fyrir mér að sú þjálfun geti beinlínis farið fram neitt sérstaklega víða en kannski nær þekking mín ekki lengra en svo að ég hefði haldið að hér þyrfti kannski að fara fram einhver sértæk þjálfun. Ég tek undir að það væri æskilegt og gott að skipta því niður á hin stærri embætti ef það er möguleiki. Fyrir utan hina daglegu verklegu þjálfun sem starfsnemar fá eins og í annarri starfsþjálfun í námi hlýtur að falla eitthvað sértækt til sem einvörðungu verður kennt hér.

Eins og ég segi er ég hlynnt þessu máli, hlakka til að takast á við það og heyra umsagnir þeirra aðila sem koma til með að hafa á því skoðanir sem ég geri ráð fyrir að verði ríkulegar að einhverju leyti. Ég hlakka til að vinna málið.