145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

742. mál
[16:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum eitt af ágætum málum sem eru hér til umræðu í dag, að þessu sinni um menntun lögreglu. Ég vil bara segja það strax að ég fagna þessu frumvarpi og tel það mjög gott og nauðsynlegt, ekki bara vegna þess að menntun sé almennt gagnleg heldur tel ég líka að málið komi til með að hafa mjög jákvæð áhrif á starfshætti lögreglu, sér í lagi samskipti lögreglu við borgara, og tel einnig að það muni stuðla að betri réttindavernd borgaranna.

Það er nú þannig í mannlegu samfélagi að góð réttindavernd fæst ekki með því einu að gott fólk sé að störfum. Gott fólk getur gert mjög vonda hluti ef það skortir þekkingu eða skilning á sjónarmiðum sem það hefur kannski ekki endilega upplifað sjálft eða hefur einungis upplifað frá annarri hlið. Þetta held ég að sé sérstaklega hættuleg tilhneiging hjá fólki í valdastöðum. Lögreglan er sú stofnun á landinu sem getur löglega beitt líkamlegu valdi. Því er afskaplega mikilvægt að réttindavernd borgaranna sé afskaplega góð og ég endurtek að þá er ekki nóg að vilja vel. Það er ekki hugurinn sem gildir, það er hvernig umgjörðin er og þeir ferlar sem gerðir eru til þess að tryggja að réttindaverndin sé sem best.

Ég tel að ef frumvarpið verður að lögum, sem ég geri fastlega ráð fyrir að það verði, muni það útbúa lögreglumenn betur til almennra starfa, í fyrsta lagi vegna þess að væntanlega verða þá einfaldlega kenndir hlutir sem ekki eru kenndir núna eða kenndir betur og á háskólastigi sem er ekki bara réttmætt heldur nauðsynlegt að mínu mati. Það mun að mínu mati efla réttindavitund lögreglumanna. Ég hygg nefnilega, og ég veit að það fer alltaf pínulítið í taugarnar á hæstv. lögreglumönnum þegar ég tala um það en það þarf að tala um þetta, að mjög margir lögreglumenn séu einfaldlega ekki nógu vel að sér um réttindi borgaranna og séu í þokkabót settir í aðstæður þar sem þeir hafa kannski ekkert endilega þá þjálfun, menntun og tól sem þarf til þess að takast á við vandamálin öðruvísi en með því að freistast í það minnsta til þess að ýta einhvern veginn til hliðar réttindum sem borgarar hafa. Eins og fyrr greinir þá er lögreglan sú stofnun sem má beita líkamlegu valdi undir ákveðnum kringumstæðum og auðvitað samkvæmt ákveðnum reglum. Ég hygg að með því að bæta menntunina og setja hana á háskólastig muni það gefa lögreglumönnum aðrar aðferðir til þess að takast á við aðstæður en með valdi eða valdbeitingu. Ég tel enn fremur að í dag sé til staðar einhvers konar menntunarlegt gap hjá lögreglu á Íslandi, sem þessu frumvarpi er ætlað að laga, og þá tel ég að það myndist óhjákvæmilega menning þar sem menn tileinka sér aðferðir sem „virka“, t.d. hvernig fólk er fengið til að samþykkja leit sem það vill ekki samþykkja, en er sett í þannig aðstæður og notuð einhver orðræða sem einhvern veginn sannfærir fólk sem vill ekki láta leita á sér af ástæðum sem engum kemur við. Það samþykkir samt leit vegna þess hvernig er talað við það. Ég geri fastlega ráð fyrir því að innan lögreglunnar myndist reynsla þar sem lögreglumenn læra með tímanum að með því að segja ákveðna hluti, með því að gefa ákveðna hluti í skyn, með því að stjórna upplýsingum á ákveðinn hátt, þá nái þeir sínu fram. Auðvitað er það skárra en hrein valdbeiting, augljóslega. En það er mjög vont að það sé ekki vegna menntunar á borð við þá sem hér er lagt til að verði uppfærð.

Þess vegna fagna ég frumvarpinu mjög og hygg að ef það verður að lögum muni það bæta þessi mál mjög mikið vegna þess að það sem eftir stendur — og ég veit að þessi orðræða fer mjög í taugarnar á lögreglumönnum, það verður bara því miður að hafa það. Það sem ég veit er að lögreglumenn upp til hópa vilja hafa þetta í lagi, þeir vilja ekki hafa þessa orðræðu, þeir vilja ekki sitja undir þessari gagnrýni, þeir vilja bara hafa þetta í lagi. Þá þurfa þeir líka að hafa tólin til þess. Þeir þurfa að fá viðunandi menntun og þeir þurfa að fá almennileg laun. Ég tel að þetta frumvarp muni enn fremur hjálpa til við það, með tímanum í það minnsta. Það er auðvitað alltaf hægt að óska sér þess að hin og þessi mikilvæga starfsstétt fái hærri laun og það eru fleiri starfsstéttir sem eiga skilið miklu hærri laun, ekki bara vegna þess að það sé sanngjarnt heldur líka vegna þess, í þessu tilfelli, að það er mikilvægt til að réttindaverndin verði sem best, að mínu mati.

Það er mjög jákvætt að hér er lögð fram tillaga sem hlýtur til lengri tíma í það minnsta að hækka laun lögreglumanna á mjög náttúrulegan hátt, án þess að fjárframlög í fjárlögum séu einfaldlega hækkuð, það sé gert með þeim hætti að það hlýtur að vera eðlileg þróun starfsins til lengri tíma að launin hækki. Það er mjög jákvætt. Það er mjög mikilvægt. Léleg laun fyrir vanþakklátt og erfitt starf og þurfa í þokkabót að sitja undir ræðum pírata af og til hlýtur að koma niður á starfsháttum. Mér finnst því ofboðslega mikilvægt að hafa launin í lagi og að menntunin endurspegli kröfurnar sem gerðar eru til starfsins sem eru mjög ríkar. Ég hygg að núverandi menntun, sem sjálfsagt er ágæt miðað við það sem er í boði, dugi ekki til. Þess vegna fagna ég frumvarpinu enn og aftur og óska lögreglumönnum öllum góðs gengis við sín lögmætu og mikilvægu störf.