145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[16:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ákvæðum laga um meðferð sakamála. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna sem fjalla um símahlustun og skyld úrræði.

Virðulegi forseti. Í XI. kafla laga um meðferð sakamála er kveðið á um skilyrði fyrir og eftirlit með rannsóknarúrræðum sem eiga það sammerkt að þeir sem þau beinast að hafa ekki vitneskju um þau. Þessar aðgerðir eru símahlustun, samanber 81. gr. laganna, upptaka á hljóðum og merkjum og ljósmyndun, samanber a- og b-lið 1. mgr. 82. gr., og notkun eftirfararbúnaðar samanber c-lið 1. mgr. 82. gr. laganna.

Þar sem þeim sem þessar aðgerðir beinast að er ókunnugt um þær skerða þær friðhelgi einkalífs viðkomandi tilfinnanlega og því er ástæða til að setja þeim ströng skilyrði og hafa eftirlit með framkvæmd þeirra. Á síðustu árum hefur verið gagnrýnt að notkun þessara úrræða og þá sérstaklega símahlustunar hafi verið umfram það sem nauðsynlegt getur talist. Skilyrði fyrir beitingu þessara úrræða séu óljós og matskennd og ekki liggi ljóst fyrir á hvaða rökum dómarar heimili þær og hefur þá sérstaklega verið rætt um símahlustun. Þá hefur einnig verið gagnrýnt að eftirlitið með þessum aðgerðum sé ábótavant.

Í frumvarpinu er brugðist við framangreindri gagnrýni og lagt til að skilyrði fyrir beitingu þessara aðgerða verði skýrari og þrengri og eftirlit með því hvernig að þeim er staðið verði aukið.

Ég mun nú fara nánar yfir einstök atriði frumvarpsins.

Í fyrsta lagi er lagt til að skilyrðum fyrir þessum aðgerðum verði breytt. Í dag eru skilyrðin þau að rannsókn beinist annaðhvort að broti sem varðað getur átta ára fangelsi eða að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess. Þá þarf alltaf að uppfylla það skilyrði að ástæða sé til þess að ætla að upplýsingarnar sem fáist með þessu móti geti skipt miklu máli fyrir rannsókn máls. Þá er rétt að benda á að ávallt skal afla dómsúrskurðar fyrir aðgerðinni.

Í frumvarpinu er lagt til að skilyrði verði að rannsókn beinist að broti sem getur varðað sex ára fangelsi og jafnframt að ríkir almanna- og einkahagsmunir krefjist þess. Ástæða þess að lagt er til að unnt verði að beita þessum aðgerðum við rannsókn brota við sex ára refsiramma í stað átta ára refsiramma í gildandi lögum er að óhjákvæmilegt getur verið að grípa til þessara aðgerða til að upplýsa ýmis brot sem hafa sex ára refsiramma. Má þar nefna brot gegn ávana- og fíkniefnum og ýmis auðgunarbrot. Hefur þessum aðgerðum verið beitt við rannsókn slíkra mála en á grundvelli skilyrðisins um að ríkir almanna- eða einkahagsmunir hafi krafist þess. Hefur slíkt þótt óljós heimild. Er hér því lagt til að skýrt sé kveðið á um að heimilt sé að beita þessum aðgerðum við rannsókn þessara tilteknu brota. Þá getur enn fremur verið óhjákvæmilegt að beita umræddum aðgerðum vegna brota sem varðað geti lægri refsingu en sex ára. Er í frumvarpinu lagt til að þau ákvæði verði sérstaklega talin upp í lögunum. Er hér um að ræða brot sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi eða beinast gegn friðhelgi einkalífsins, frjálsræði og persónuvernd. Óbreytt verður að upplýsingarnar verða að skipta miklu fyrir rannsókn málsins og að sjálfsögðu þarf ávallt að fá dómsúrskurð fyrir aðgerðinni.

Samhliða skilyrðum um refsiramma þeirra brota sem um ræðir þurfa ríkir almanna- og einkahagsmunir að vera til staðar. Þannig þarf dómari að vega og meta hvort sú skerðing á friðhelgi einkalífs sem leiðir af umræddum aðgerðum verði réttlætt með öðrum og brýnni hagsmunum svo upplýsa megi sakamál. Við mat á því hversu ríkir hagsmunir almennings eða einstaklings eru má hafa til hliðsjónar þá refsingu sem líklega yrði dæmd ef brot teldist sannað, umfang máls, hagsmuni í máli eða hvort almannahætta stafi af broti. Ávallt verði þó að vera um heildarmat á öllum aðstæðum í máli að ræða.

Í öðru lagi er lagt til að þegar dómari fær beiðni um símahlustun eða skylda aðgerð skipi hann lögmann til að gæta hagsmuna þess sem aðgerð beinist að. Er lögmaðurinn bundinn trúnaði um allt sem hann fær vitneskju um í starfinu, einnig gagnvart þeim sem hann gætir hagsmuna fyrir. Rökin fyrir þessari tillögu er að með þessu móti sé réttaröryggi þeirra sem aðgerðin beinist að betur tryggt en ella, auk þess sem dómari er þá ekki settur í þá aðstöðu að þurfa að gæta sérstaklega þeirra aðgerða við úrlausn málsins. Með þessu fyrirkomulagi ættu að koma fram á fyrstu stigum málsins rökstudd andmæli við kröfu lögreglu eða ákæruvalds sem dómari yrði að taka afstöðu til.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á eftirliti með aðgerðum og eyðingu gagna. Í dag er kveðið á um að gögnum sem fást með umræddum aðgerðum verði eytt jafnskjótt og þeirra er ekki lengur þörf, nema um sé að ræða samskipti sakbornings og verjanda en þeim skal eyða þegar í stað. Í frumvarpinu er áfram gert ráð fyrir að gögnum verði eytt jafnskjótt og þeirra er ekki lengur þörf, en þó er gerð sú breyting að verði sakamál höfðað verði gögnum ekki eytt fyrr en endanlegur dómur hefur gengið í málinu. Er þetta lagt til vegna niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu frá árinu 2009 sem kvað upp úr með að önnur framkvæmd bryti á rétti viðkomandi til réttlátrar málsmeðferðar. Óbreytt er að ávallt skal eyða gögnum um samskipti sakbornings og verjanda.

Í dag er kveðið á um að lögreglustjóri skuli tilkynna þeim sem aðgerð beinist að um aðgerðina svo fljótt sem verða má eftir að henni er lokið, þó þannig að það skaði ekki frekari rannsókn málsins. Skal ríkissaksóknari fylgjast sérstaklega með að lögreglustjórar sinni þessari skyldu sinni.

Í frumvarpinu er lagt til að eftirlitshlutverk ríkissaksóknara verði aukið og hann fylgist ekki einungis með því að lögreglustjóri sinni tilkynningarskyldu sinni, heldur hafi hann einnig eftirlit með því að gögnum sé eytt í samræmi við lög. Honum er jafnframt falið að setja reglur um hvernig eftirlitinu skuli háttað og skal þar gert grein fyrir hvernig unnt verði að upplýsa hverjir hafa haft aðgang að gögnunum.

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um mikla réttarbót að ræða og að komið hafi verið til móts við þá gagnrýni sem framkvæmd og ekki síður eftirlit með þessum íþyngjandi aðgerðum hefur hlotið, sérstaklega þegar litið er til símahlustunar. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar og 2. umr.