145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[16:51]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áhyggjur mínar snúa helst að því að það er erfitt að skilgreina 210 gr. miðað við samfélag 21. aldar. Ég skil vel þá viðleitni að sporna gegn skipulagðri brotastarfsemi, en svo að dæmi sé tekið hefur, varðandi 210. gr., enginn dómur fallið í Hæstarétti frá 2000; það var ekki dæmt fyrir 210. gr. fyrr en 1975.

Við erum að tala um grein sem hefur verið notuð átta sinnum, ef ég man rétt, allt í allt í Hæstarétti og örlítið oftar í héraðsdómum. Það er varhugavert, að mínu mati, að koma 210. gr. inn í skilyrði fyrir símahlustun þegar það er ekki víst hvernig klám er skilgreint. Það er ekki skilgreint í greinargerð — það er reyndar skilgreint í einum dómi Hæstaréttar og ég get reifað það af hverju það er ekki góð skilgreining en það mundi kannski taka langan tíma. Hins vegar er kannski vert að breyta 210. gr. til að ná betur yfir misnotkun á manneskjum. Eins og þetta er hérna, greinin eins og hún er í raun og veru, getur þess vegna átt við textaklám; það er ekkert fórnarlamb þar heldur er um að ræða ímyndun okkar. 210 gr. hefur líka verið notuð til að réttlæta teiknaðar skuggamyndir af fólki í kynferðislegum stellingum og fleira í þeim dúr. Þá erum við ekki að tala um skipulagða brotastarfsemi, við erum ekki að tala um nein fórnarlömb. Það væri því upplagt að endurskoða þessa grein og láta hana beinast betur að fórnarlömbum (Forseti hringir.) kynferðisofbeldis, bæði með hrelliklám í huga sem og skipulagða brotastarfsemi og vændi.