145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur kynnt sér þetta mál ákaflega vel. Það er fátt sem ég er honum ósammála um. Hann sagði hér að það væri ekki hlutverk ríkisins að sjá um að banna klám. Bara til þess að ég hafi algjörlega á tæru afstöðu hv. þingmanns þá er hann eigi að síður þeirrar skoðunar að það sé hlutverk ríkisins að banna barnaklám. Það kemur þá fram hér á eftir hvort hv. þingmaður er þeirrar skoðunar.

Það sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann er: Telur hann ekki þörf á því þegar um er að ræða auknar rannsóknarheimildir, eins og þær sem mér finnast vera í þessu frumvarpi og er þeim ekki ósammála, að með einhverjum hætti sé gengið úr skugga um að gæslumannanna sé líka gætt, svo vísað sé í gamla kennisetningu úr Rómarréttinum hinum forna?

Við höfum margoft rætt með hvaða hætti fylgjast á með þeim sem fá heimildir til þess að fylgjast með öðrum. Sú umræða hefur farið fram í þessu þingi og í mörgum öðrum þingum nágrannalandanna. Ég hef verið þeirrar skoðunar að æskilegasta leiðin til þess að hafa þetta eftirlit sé með einhverjum hætti að búa svo um hnúta að þingmenn, hugsanlega allsherjarnefnd eða sérstök þingnefnd, eins og er sett upp í sumum þingum, gegni sérstöku eftirlitshlutverki. Við höfum mörg dæmi úr sögunni um að heimildum af þessum toga hafi verið misbeitt í pólitískum tilgangi. Það er aldrei hægt að útiloka að slíkt komi upp aftur. Þá þarf réttarkerfið að vera með þeim hætti að einhver hafi eftirlit með því.

Hvað segir hv. þingmaður um að með einhvers konar hætti verði tekinn upp sá háttur að þingið hafi aðkomu í gegnum einhverja af nefndum sínum eða (Forseti hringir.) með öðrum hætti að því að hafa eftirlit með þessum heimildum?