145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem gerist aftur og aftur þegar maður ræðir klám er að þá er strax farið að spyrja mann hvort maður sé ekki örugglega hlynntur banni á barnaklámi. Ég taldi mig vera algjörlega skýran í ræðu minni um það. Að sjálfsögðu á barnaklám að vera bannað og að sjálfsögðu á hrelliklám að vera bannað. Það held ég að hafi verið alveg skýrt. Ef það var ekki skýrt þá skal það vera skýrt núna og ber að uppræta það. Þar er líka á ferð misnotkun á börnum. Þar eru á ferð réttindabrot gagnvart einstaklingum. Það er einfaldlega ekki tilfellið þegar fólk dreifir klámi þar sem fólk kemur fram viljugt og dreifingin er lögmæt með hliðsjón af réttindum þeirra sem taka þátt í kláminu. Það er auðvitað aldrei tilfellið að réttindi barna í klámi séu í lagi. Það er aldrei tilfellið. Þess vegna á það að sjálfsögðu að vera bannað. Vonandi er það algjörlega skýrt.

Eins og ég sagði líka í ræðu minni eru það 210. gr. a og 210. gr. b almennra hegningarlaga sem helst varða barnaklám. Þó að það sé að vísu málsgrein í 210. gr. sem varðar það líka þá eru a og b greinarnar aðallega um það efni.

Hvað það varðar að gæta varðanna þá þurfum við auðvitað að gæta varðanna einhvern veginn. Reyndar lögðum við í Pírötum fram þingsályktunartillögu þann 11. september 2015 um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Hér á eftir verður rætt frumvarp hæstv. innanríkisráðherra sem ég hygg að sé mikið til bóta í málaflokki sem er að mínu mati í miklu ólagi. Það gengur ekki jafn langt og ég mundi vilja, en við ræðum það betur á eftir. En svarið er einfaldlega: Já, það þarf að vera eftirlit með þeim aðilum sem hafa eftirlit með borgurum.