145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég bið hv. þingmann afsökunar á því að ég skuli hafa leyft mér þá ósvinnu að biðja hann að svara einfaldri spurningu. Það kann vel að vera að eftirtekt mín hafi ekki verið nægilega skýr undir ræðu hv. þingmanns, ég gæti þó rakið kafla úr henni. En ég vildi bara ganga úr skugga um réttan skilning, ég var ekki að reyna að bregða fæti fyrir eða koma höggi á hann með nokkrum hætti. Mín vegna má hann svo vera eins pirraður og hann vill vegna einfaldrar spurningar. Mér þótti bara rétt að þetta lægi fyrir. Ég var ekki algerlega skýr á niðurstöðunni þegar hann fór í ræðu sinni yfir afstöðu sína til hrellikláms og barnakláms.

Ég vil svo nota tækifærið af því að hér er til umræðu á eftir frumvarp þar sem m.a. er verið að fjalla um sjálfstætt eftirlit með þeim sem hafa með höndum framkvæmd rannsókna, svo sem símahlerana. Það er afstaða mín, og hefur verið, að þingið eigi að hafa eftirlit með þeim sem hafa þessa framkvæmd með höndum. Að því marki er ég algjörlega sammála ýmsum fyrri dómsmálaráðherrum eins og t.d. Birni Bjarnasyni. Við áttum saman yfir þetta púlt mjög gagnlegar umræður hér á sínum tíma. Þá kom í ljós að menn höfðu gróflega misnotað heimildir til hlustunar og eftirgrennslan með fólki í pólitískum tilgangi. Vill nú til að mætur forsetaframbjóðandi flutti um þetta merkilegt erindi sem var tilefni utandagskrárumræðu einu sinni hér á hinu háa Alþingi. Í því efni vísa ég líka til merkrar greinar Þórs Whiteheads prófessors. Það er brýn nauðsyn til þess að við séum vakandi fyrir þessari hættu. Það er af þeim sökum sem ég taldi rétt að koma þessu sjónarmiði á framfæri.