145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:20]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp sem varðar skilyrði fyrir beitingu símahlustunar. Ég tel þetta mál vera bragarbót miðað við hvernig lögin eru í dag. Eins og hefur komið fram þá fer símahlustun mjög mjúklega fram hjá dómskerfinu eins og staðan er núna, það virðist vera að í 99,9% tilvika þegar lögregla sækir um heimild til símahlerana sé heimild veitt hjá dómara. Það er sér í lagi mjög gott að þetta „eða“ verði „og“, sem þýðir að það þurfa að vera bæði ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir að baki og að brotið þurfi að varða sex ára fangelsi. Ég tel það vera mjög gott og ég held að það muni skýra mjög til hvers símahlustanir þurfa að vera.

Sömuleiðis ætla ég að fagna því að lögmaður verði skipaður fyrir þolanda hlerunar, enda er eitt sem við píratar höfum gagnrýnt hversu einhliða dómsúrskurðirnir hafa verið. Það er enginn sem gætir réttarstöðu þess sem á að hlera, þannig að það er mjög mikilvægt að lögmaður sé skipaður til þess að ganga úr skugga um að rödd þolanda hlerunarinnar fái að heyrast í dómsal.

Það sem mig langar helst til þess að ræða hér er það sem hv. 10. þm. Reykv. n., Helgi Hrafn Gunnarsson, reifaði áðan, en það er ástæðan fyrir því að 210. gr. er haldið inni. Ég skil af hverju hún hefði átt að vera inni þegar þetta mál var lagt fyrst fram á 141. þingi, en hins vegar tel ég það vera tímaskekkju að hafa hana inni í dag þar sem klámbannið, 210. gr. eins og hún er í dag, endurspeglar ekki og hefur ekki þann kraft sem hæstv. ráðherra vill meina. Eins og kom fram í andsvari mínu við hæstv. innanríkisráðherra var ástæðan fyrir því að greinin var inni sú að geta fylgst með skipulagðri glæpastarfsemi. Hins vegar er raunin sú að 210. gr. hefur ekki verið beitt í þeim tilgangi að sporna við skipulagðri glæpastarfsemi því að 210. gr. er í raun og veru spurning um ritskoðun. Þetta er ritskoðunargrein af gamla skólanum ef svo má segja, þetta er gamalt 19. aldar ákvæði, mig minnir að það komi fyrst fram 1869, og rann ljúflega í gegn þegar þeir tveir bálkar sem síðar urðu almenn hegningarlög, lög nr. 19/1940, voru samþykktir á sínum tíma. 210. gr. hljómar svona, ég er reyndar ekki með hana alla, því miður, en megininntakið sem hefur staðið í stað í rúm 150 ár er þetta, með leyfi forseta:

„Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.

Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt.“

Þessi grein tekur engan veginn á skipulagðri glæpastarfsemi. Ég skil viðleitnina með því að hafa greinina í frumvarpinu en í raun og veru rammar hún ekki inn vandamálin sem við erum að fást við. Vandamálin sem við erum að fást við í dag þegar kemur að klámi er að klám er út um allt, því miður, fyrir suma er það því miður. Við getum alveg rætt það hvaða áhrif það getur haft fyrir samfélagið, en eins og 210. gr. er í dag, þá virkar hún t.d. ekki á hrelliklám. Hrelliklám er alvarlegt samfélagslegt vandamál þar sem fórnarlömb þess hafa því miður ekki nein tól í höndunum nema 209. gr., sem fjallar um blygðunarsemisbrot, og 239. gr., sem ég man ekki nákvæmlega um hvað fjallar, ég hugsa að hv. þm. Brynjar Níelsson geti ábyggilega upplýst okkur um það, en ég man hins vegar númerið á henni.

Það sem skiptir máli er að þessi klámgrein hefur einungis verið notuð í örfá skipti í dómsal. Hún hefur verið notuð til þess að sekta fólk eða koma því í fangelsi, reyndar aðallega að sekta, og í fyrsta skiptið sem ákvæðið var notað var þegar kært var fyrir að dreifa plakötum með skuggamyndum árið 1975, sem er mjög merkilegt mál og fór alla leið til Hæstaréttar. Þeir sem kærðu töpuðu þar og seinna meir, á níunda áratugnum, reyndi á þetta ákvæði þrisvar sinnum fyrir Hæstarétti. Það var í öllum tilfellum spurning um vídeóleigur og hvort þær mættu leigja út klámmyndir eða svokallaðar bláar myndir sem sýndu fólk í kynferðislegum athöfnum.

Vandamálið við íslensku klámlögin er að það er engin skilgreining á því hvað klám er. Fólk hefur hugsað, ókei, klám er eitthvað ákveðið, en málið er að það hvað klám er hefur verið síbreytilegt í gegnum tíðina. Það er eitthvað sem við sagnfræðingar höfum svolítið gaman af að spá í, t.d. hvað var klám árið 1869. Var það Bósasaga? Já, Bósasaga var klám, en hins vegar þótti það kannski líka klám ef sást aðeins of mikið í leggina á konum. Það var klám að sjá bara upphandleggina, liggur við. Þannig að hugmyndir okkar um klám eru jafn síbreytilegar og tíminn er í raun og veru. Það er nákvæmlega það sem við sjáum í dag, við erum að reyna að búa til samfélag eða það eru komnar nýjar hreyfingar í klámiðnaðinum þar sem reynt er að búa til svokallað „fair trade“-klám, þar sem reynt er að sjá til þess að það sé engin misnotkun í iðnaðinum. Þarna er iðnaðurinn sjálfur að reyna að koma í veg fyrir skipulagða glæpastarfsemi. Við sjáum því ákveðna þróun þar.

En eins og ég sagði felst engin skilgreining á klámi í 210. gr. Þess vegna tel ég í raun og veru rosalega hættulegt að hafa hana inni í lögum um símahleranir vegna þess að tilgangur hlerana er náttúrlega að reyna að koma upp um einhver stórfengleg brot. Er hætta á því að ákvæðið verði notað til þess að fangelsa fólk fyrir það að neyta kláms? Viljum við ekki að það sé verið að neyta kláms? Eða dreifa klámi? Ef einhver tekur af sér svokallaða sjálfsmynd eða „selfie“ og sendir með Tinder eða Snapchat eða bara símleiðis og við fylgjumst með því, mun það hafa það í för með sér að viðkomandi geti hlotið refsingu? Við erum að tala um að klámgreinin eins og hún stendur í dag er meingölluð miðað við það 21. aldar samfélag sem við búum í og þess vegna tel ég mjög varhugavert að hún haldist inni í frumvarpi til laga um skilyrðingu fyrir beitingu símahlustunar.

Klám var fyrst skilgreint með svokölluðum stjörnumerkjamyndadómi, en stjörnumerkjamyndirnar voru ljósbláar erótískar myndir sem voru sýndar á Stöð 2 árið 1990, ég held að dómur hafi fallið 1991. Þar vitnar hæstaréttardómari í skilgreiningu UNESCO á því hvað klám er. Hins vegar vill svo til að UNESCO er ekki með neina skilgreiningu á því hvað sé klám. UNESCO hélt fund árið 1986 þar sem voru svona 25 konur sem tóku þátt og þessi skilgreining kemur m.a. fram á þeim fundi. Það eiga margir fundir sér stað um réttindi kvenna og fleira í þeim dúr, UNESCO hélt einn af þessum fundum og þar kom m.a. þessi skilgreining fram. Hún er ekki opinberlega á vegum UNESCO. Þessi skilgreining er gölluð að miklu leyti og það er nákvæmlega það sem Norðmenn komust að, en þeir voru með mjög svipaða skilgreiningu í sínum lögum frá 1985. En vandamálið er að í þessari skilgreiningu segir að klám sé í eðli sínu ofbeldi. Já, við getum alveg rætt það út frá því, en ég tel svo ekki vera þar sem við getum alveg búið til klám þar sem er ekkert fórnarlamb. Við getum skrifað klám og við getum teiknað klám og þá er ekkert fórnarlamb þannig að ég sé ekki hvernig það getur verið ofbeldi. Hins vegar er hér verið að tala um að klám sé eitthvað sem smáni konur, sem sýni konur í kynferðislega vafasömum tilgangi og síðan kemur einhver meiri útlistun á því. Það sem er mjög áhugavert við þessa skilgreiningu er að hún er tiltölulega samhljóða þeirri skilgreiningu sem norska ríkið setti í klámlöggjöf sína árið 1985. Hins vegar er það svo að árið 2004 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að það væri nákvæmlega ekkert í þeim klámmyndum sem átti að dæma fyrir sem gæti verið niðrandi, sem gæti verið kúgun, sem gæti sýnt ofbeldi. Þar af leiðandi féll skilgreiningin um sjálfa sig.

Þegar við ætlum að leyfa símahlustun og byggja það á 210. gr., hvað erum við í rauninni að leyfa? Þetta er vandamálið. Ég skil viljann, ég skil að við viljum reyna að sporna á móti skipulagðri glæpastarfsemi. Ég skil að við viljum reyna að vernda konur og börn. 210. gr. fjallar ekki um barnaklám, enda kom hv. þm. Ögmundur Jónasson því í gegn á sínu ráðherratímabili að skipta því ákvæði yfir í 210. gr. a og 210. gr. b.

Ég tel að 210. gr. sé barn síns tíma. Ég tel að siðferði okkar og hugmyndir um tjáningarfrelsi og kynfrelsi hvers einstaklings fyrir sig hafi tekið það miklum breytingum að við þurfum að endurskoða þessa grein til þess að hún endurspegli það ef um er að ræða einhvers konar skipulagða glæpastarfsemi þar sem notuð er þessi tegund af kynferðisbroti, í raun og veru birting á kynferðisbroti, t.d. með myndatöku, hljóðritun eða kvikmyndun, og það sé þá gert ólögmætt. Hrelliklám mundi þá t.d. falla undir það og það er mjög mikilvægt að taka á því. Hins vegar er það önnur umræða.

Ég vona að ég hafi náð að reifa ástæðuna fyrir því af hverju 210. gr. er gölluð og nái ekki þeim tilgangi sem hæstv. innanríkisráðherra vill að hún hafi í frumvarpinu. Ég tel að það muni skapa lagalega óvissu þegar það kemur að því hvenær megi beita 210. gr. til þess að hlera fólk, hvaða klám það horfir á. Þá verðum við náttúrlega að koma inn á kynvitund og kynupplifun einstaklinga. Við verðum að viðurkenna að það er ekki allt klám eins. Við verðum að athuga að hafa kynfrelsi einstaklingsins í huga þegar við erum að búa til svona lagað.

Mér finnst mjög mikilvægt að þessi athugasemd mín verði tekin til greina hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég vona að hæstv. innanríkisráðherra muni líka taka sig til og mögulega endurskoða 210. gr. og breyta henni til þess að endurspegla það sem við viljum að hún endurspegli, því að núna gerir hún það nefnilega ekki. Ef hún gerði það mætti hún vera inni. En eins og hún er í dag þá er hún bitlaus, hún hefur ekki verið notuð eða verið notuð mjög tilviljanakennt og eftir geðþótta. Ef ég man rétt þá var það vegna gleðigöngunnar sem síðast var lögð kæra til lögregluyfirvalda á grundvelli 210. gr. og því máli var vísað frá. Til að 210. gr. geti verið inni þarf að breyta henni eða það verður sleppa því að hafa hana í frumvarpinu eins og hún stendur núna.