145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég horfi á söguna og sé að þessum heimildum hefur verið misbeitt í pólitískum tilgangi vegna þess að laga- og regluramminn var ekki nógu skýr. Ég ætla engum stjórnmálaflokki núna að misbeita þessum heimildum, en við verðum að hugsa fyrir því að slíkt gæti gerst.

Ef á að fyrirbyggja pólitíska misbeitingu á slíkum heimildum þá hygg ég að með því að tryggja að fólk úr báðum örmum stjórnmálanna hafi aðkomu að slíku eftirliti sé nokkuð í gadda slegið að menn njósni að minnsta kosti ekki um þá sem sæti eiga á Alþingi. En hv. þingmaður bendir hins vegar á þá möguleika að það séu hópar sem ekki eiga fulltrúa á Alþingi Íslendinga sem öllum kunni að vera illa við og þess vegna hugsanlegt að allir séu til í að leyfa eftirlit með þeim. Ég dreg í efa að slík staða komi upp. Ef þingmenn hafa eftirlitið með höndum þá hygg ég að til þeirra eftirlitsstarfa mundu veljast þeir af þinginu sem menn telja, af reynslunni, hafna yfir vafa í þessum efnum. Ég tel að slíkir þingmenn mundu líka sjá til þess að réttindum þessara hópa sem ekki ættu fulltrúa hér inni væri til haga haldið.

Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að aðkoma þingsins sé æskileg miklu frekar en að verkefnið sé falið sérstakri stofnun. Á sínum tíma var til dæmis rætt hér um tiltekinn fjölda þingmanna úr allsherjarnefnd, jafnvel formenn þingflokka; það var hugmynd sem var reifuð á þeim tíma þegar ég, hv. þingmenn Ögmundur Jónasson, Björn Bjarnason og fleiri komu að þessu máli. Mig minnir að í frumvarpsdrögum frá þeim tíma hafi verið rætt um að formenn þingflokka gegndu þessu hlutverki. Þessa er þörf en sér hvorki stað í þingsályktunartillögu (Forseti hringir.) Pírata frá því fyrir tveimur árum né í frumvörpunum sem hér eru. En þetta er mikilvægt atriði í eftirliti með lögreglunni.