145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög.

658. mál
[18:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta mál hefur verið rætt öðru hvoru undanfarin ár. Ég verð að láta það koma fram að á þessu kjörtímabili hefur ekki verið unnið mál af þeim toga sem við hv. þingmaður erum hér að ræða. Fyrst og fremst hefur verið fjallað um hvort ástæða sé til að stíga skref til að auka eftirlit með lögreglunni. Þegar nefndin lauk sínum störfum — ég vil taka það fram og vil endilega að hv. þingmaður hugsi til þess að þær tillögur sem hér eru lagðar til eru mjög góðra gjalda verðar. Spurningin sem við erum að ræða okkar á milli er hvort taka eigi skrefið stóra og koma með lýðræðislegt aðhald inn í þetta mál. Þetta mál er ekki þannig búið núna.

Hv. þingmaður er ekki ánægður með að ég skuli segja að ég vilji skoða málið. Ég vil leyfa mér að segja það sem ég held að blasi við, að sá ráðherra sem hér stendur býst reyndar ekkert við því að vera ráðherra allt þetta ár eins og þingheimur þekkir, og ég vil ekki lofa því, a.m.k. ekki upp í ermina á mér, að frumvarp af þessum toga verði tilbúið í tæka tíð áður en þetta þing fer heim.

Finnst mér áríðandi að það verði gert? Hyggst ég taka skref í því efni? Vil ég eiga það samtal við nefndina? Jú, þess vegna fórum við í það að setja sérstaka málstofu í gang. Þess vegna hitti ég sérstaklega formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til að ræða þetta mál. Sá ráðherra sem hér stendur er sömu skoðunar og hv. þingmaður, að það sé eðlilegt að þingið hafi aðkomu að þessu máli.

Mér þykir mjög miður að hv. 4. þm. Reykv. n. sé dapur út í mig vegna þessa máls, en svona er þetta. Það breytir ekki þeirri eindregnu skoðun minni að lengra þurfi að ganga, en ég hef aldrei heyrt að það sé vont að taka (Forseti hringir.) eitt skref í einu.