145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög.

658. mál
[18:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef komið að þessum málum nánast áratugum saman. Afstaða mín hefur verið algjörlega skýr í þessum efnum. Margir dómsmálaráðherrar hafa gefið mér fyrirheit um að þegar menn loksins færu í þetta mál yrði hugsað fyrir lýðræðislegu eftirliti. Þegar loksins kemur dómsmálaráðherra sem skilur málið miklu betur en ég og nær að orða það miklu skýrar en ég, sem er þó meðal þeirra þingmanna sem hafa hugsað þetta hvað lengst, er ég lens yfir þeirri niðurstöðu að ekki eigi að koma því á.

Við horfum til þess sem eins af dapurlegustu köflunum í sögu lýðveldisins að stundaðar voru pólitískar njósnir. Þær voru ekki umfangsmiklar en þær voru stundaðar. Þær voru stundaðar á fyrrverandi alþingismönnum, ritstjórum blaðs sem ég var einu sinni ritstjóri að, forustumönnum í verkalýðshreyfingunni, forseta ASÍ — og það má aldrei gerast aftur. Um þetta höfum við öll verið sammála. Með sama hætti er samfélagið fyrirsjáanlega að þróast þannig að við munum hugsanlega þurfa á auknum rannsóknarheimildum að halda. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að ekki er hægt að veita þær nema með því að þessu lýðræðislega eftirliti verði komið á.

Nú vill svo til að við hæstv. ráðherra erum sammála um kjarna málsins, en hæstv. ráðherra segir að það vanti tíma til þingloka til þess að koma fram með nýtt frumvarp. Hvað með að framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið vinni saman að þessu máli? Hvað með að það verði skoðað í þeirri nefnd sem fær þetta til úrvinnslu að frumvarpinu verði breytt, t.d. í þá veru sem hæstv. ráðherra réttilega stingur upp á, að með einhverjum hætti verði búið til hlutverk fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ellegar einhverjum úr henni til að sinna þeirri trúnaðarskyldu sem fælist í slíku eftirliti? Fordæmin eru mýmörg (Forseti hringir.) í löndum Vestur-Evrópu.