145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög.

658. mál
[18:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Orðin „absúrd kómík“ voru þau sem Jónas Hallgrímsson notaði um hluti sem voru grátbroslega fyndnir og á skjön við eðlilegt gangvirki þess sem fyndið er í tilverunni. Mér finnst það kaldhæðnislegt þegar menn fara í það verk, sem er þarft vissulega, að setja upp einhvers konar ramma um eftirlit með lögreglunni, að menn skuli ekki einu sinni blikka auga — og það er hvergi gert, ekki heldur í greinargerðum með þessu frumvarpi — til þessa þáttar sem við höfum aðallega verið að ræða hér, að minnsta kosti ég. En látum það liggja á milli hluta.

Mestu máli skiptir að þessi umræða hefur verið vakin hér. Ráðherrann telur að það þurfi miklu lengri umræðu til þess að hægt sé að þroska þetta mál. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé miklu auðveldara viðfangs en hefur fram komið. Ég hef lagt hér fram ákveðnar lausnir og komið auk þess fram með betrumbót formanns Lögmannafélagsins fyrrverandi á því.

Eins mikið og ég er oft á móti ýmsum þáttum í skoðanarófi hv. þm. Brynjars Níelssonar þá er hann dæmi um mann sem ég mundi treysta til þess að vera fulltrúi minn og hvers sem er og hann mundi gæta að réttindum allra í þessu, ekki bara þeirra sem eiga sæti hér. Því eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson benti á hér fyrr í dag geta verið stjórnmálalegir hópar sem ekki eiga sæti hér og kann að vera hættara við að sæta eftirgrennslan af þessu tagi. En við mundum velja til slíkra verka þá sem við treystum. Ég mundi treysta, eins og ég sagði, hv. þm. Brynjari Níelssyni og hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur. Það er dæmi um fólk sem ég mundi vilja hafa í slíkri nefnd.

Mér er alveg sama hverjir það eru, ég vil einfaldlega að ef við stígum þetta skref verði hugað að þessu. Ég hef áður lýst afstöðu (Forseti hringir.) minni til þess hvernig ég mun bregðast við framvindu þessa máls.