145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

handtaka og afhending manna til og frá Íslandi á grundvelli handtökuskipunar.

617. mál
[18:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar. Frumvarpið var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og ég legg það fram að nýju efnislega óbreytt.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til lagabreytingar til að unnt verði að fullgilda samning Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um málsmeðferð við afhendingu sakamanna milli ríkjanna, eða hin svokallaða evrópska handtökuskipun. Samningurinn var undirritaður þann 28. júní 2006 og Alþingi heimilaði að staðfesta hann með þingsályktun þann 16. mars 2007. Gildistaka samningsins er háð því að Ísland og Noregur hafi bæði gengið frá viðeigandi lagabreytingum til fullgildingar samningsins. Noregur gekk frá sínu ferli árið 2013 en dómsmálaráðherra Noregs hefur ítrekað við mig mikilvægi þess að flýta innleiðingu íslenskra stjórnvalda, ekki síst í ljósi síaukinnar hryðjuverkaógnar í Evrópu. Því er brýnt að þetta mál verði afgreitt á yfirstandandi þingi.

Í frumvarpinu er lagt til að sameinuð verði í einni heildarlöggjöf ákvæði gildandi laga nr. 12/2010, um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða, eða norræn handtökuskipun, og ný lagaákvæði er leiða af skuldbindingum Íslands vegna hinnar evrópsku handtökuskipunar. Frumvarpið felur í sér nokkrar mikilsverðar breytingar á gildandi kerfi.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að fylgja meginreglu samningsins um að ríki afhendi eigin ríkisborgara. Samkvæmt samningnum er Íslandi heimilt að víkja frá þessari meginreglu með yfirlýsingu, en frumvarpið gerir ekki ráð fyrir slíkri yfirlýsingu. Sú tillaga byggir á heildarmati á hagsmunum Íslands með þátttöku í hinni evrópsku handtökuskipun, en á undanförnum árum hefur þörfin fyrir alþjóðlegt samstarf við rannsókn og meðferð sakamála aukist til muna. Skipuleg brotastarfsemi og hryðjuverk eru í eðli sínu alþjóðleg og þekkt er að brotamenn nýti sér glufur í mismunandi löggjöf ríkja til að komast fram hjá laganna vörðum. Þetta nýja fyrirkomulag er liður í því að koma í veg fyrir að slíkar glufur séu nýttar.

Þá byggir samningurinn á gagnkvæmni, en það felur í sér að ef Ísland ákveður að víkja frá meginreglunni um afhendingu á eigin ríkisborgurum þá er öðrum aðildarríkjum samningsins heimilt að synja um afhendingu á eigin ríkisborgara til Íslands. Þar með gætu íslensk stjórnvöld staðið frammi fyrir því að ríki samstarfsins synjuðu um afhendingu á manni sem íslensk stjórnvöld óskuðu eftir að fá afhentan hingað til lands. Með því fyrirkomulagi hefði samstarfið takmarkaða þýðingu.

Vert er að taka fram að Ísland er eitt af fáum ríkjum Evrópu sem setur fortakslaust bann við afhendingu eigin ríkisborgara til ríkja innan Evrópu. Önnur ríki annaðhvort heimila afhendingu eigin ríkisborgara eða skilyrða afhendingu þannig að þeir afpláni refsingu í sínu heimalandi. Með núgildandi fyrirkomulagi er hætt við að íslenskir afbrotamenn á alþjóðavettvangi geti nýtt sér bann við afhendingu á íslenskum ríkisborgurum sem leið til þess að koma sér hjá refsingu vegna brotastarfsemi þeirra erlendis og geta því ávallt leitað skjóls hér á landi.

Mikilvægt er að halda því til haga að allnokkrar undantekningar eru frá meginreglunni um afhendingu eigin ríkisborgara. Í frumvarpinu eru í samræmi við samninginn ákvæði sem ýmist heimila eða skylda Ísland til að synja afhendingu eða skilyrða hana.

Í 9. gr. frumvarpsins eru taldar upp skyldubundnar synjunarástæður, ef einhverjar þær aðstæður sem þar eru uppi liggja fyrir er skylt að synja um afhendingu. Má þar til dæmis nefna tilvik þegar manni hefur verið veitt sakaruppgjöf vegna sama verknaðar hér á landi eða þegar maður getur ekki vegna aldurs borið refsiábyrgð samkvæmt lögum hér á landi.

Þá eru í 10. gr. frumvarpsins taldar upp heimilar synjunarástæður. Má þar nefna tilvik þegar rannsókn vegna sama verknaðar er í gangi hér á landi og hún beinist að hinum eftirlýsta. Þá er einnig heimilt að synja um afhendingu þegar handtökuskipun varðar fullnustu refsingar og íslensk stjórnvöld skuldbinda sig til að fullnusta refsingu dómsins hér á landi.

Enn fremur er kveðið á um í 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins að synja megi um afhendingu á grundvelli mannréttindasjónarmiða og þá má ávallt skilyrða afhendingu þannig að íslenskur ríkisborgari eða einstaklingur búsettur hér á landi verði ekki afhentur til annars ríkis á grundvelli handtökuskipunar nema hann fái að afplána refsingu sína hér á landi verði hann fundinn sekur um brot í öðru ríki.

Evrópska handtökuskipunin tekur einungis til samstarfs aðildarríkja Evrópusambandsins og Íslands og Noregs. Því verður áfram óheimilt að framselja íslenskan ríkisborgara til ríkja utan þess. Þá ber enn fremur að nefna í þessu samhengi að heimilt hefur verið síðan 1962 að framselja íslenskan ríkisborgara til Norðurlandanna. Er því ekki um breytingu þar að ræða.

Í öðru lagi felur þetta breytta fyrirkomulag í sér mun styttri tímafresti hvað varðar alla málsmeðferð og afhendingu, en í gildandi kerfi getur það tekið allt frá einu til tveimur árum að framselja mann til annars ríkis eða fá mann framseldan hingað til lands. Hinar breyttu reglur geta hins vegar þýtt að afhending getur tekið frá einum til fjögurra mánaða.

Í þriðja lagi koma þau ráðuneyti sem fara með dómsmál ekki að málsmeðferðinni þar sem í samningnum er miðað við að ákæruvaldið eða önnur stjórnvöld í réttarkerfinu sem tilnefnd eru gefi út handtökuskipun, taki á móti og fjalli um hana og taki ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni um afhendingu eða ekki. Í frumvarpinu er lagt til að ríkissaksóknari hafi þetta hlutverk.

Líkt og fram hefur komið felur frumvarpið í sér reglur sem eiga að auðvelda samstarf ríkja þegar kemur að afhendingu manna vegna refsiverðrar háttsemi. Með því að sameina í eina heildarlöggjöf ákvæði laga nr. 12/2010, um norræna handtökuskipun og ný lagaákvæði er leiða af samningi vegna hinnar evrópsku handtökuskipunar, á að tryggja að samstarf á þessu sviði verði skilvirkara og fyrir hendi séu árangursríkari tæki í baráttunni gegn afbrotum þvert á landamæri.

Virðulegi forseti. Ég óska þess að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.