145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú eru fimm vikur frá því að Panama-afhjúpunin átti sér stað og um það bil fjórar vikur frá því að forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fór úr embætti vegna þeirra. En við göngum enn til starfa í þinginu eins og ekkert hafi í skorist, enn situr ríkisstjórnin. Tveir ráðherrar í ríkisstjórninni eru beintengdir og sannir að því að hafa átt og rekið aflandsfélög í skattaskjólum, þar á meðal fjármálaráðherra þjóðarinnar, Bjarni Benediktsson, sem streitist við að sitja og segir ekki af sér í fullkominni storkun við almennt siðgæði og vilja þjóðarinnar til að fá að veita nýtt umboð nýjum stjórnvöldum í landinu, sem er sanngjörn og réttmæt krafa eftir það sem á undan er gengið.

Ég hlýt að nota málfrelsi mitt hér, virðulegi forseti, þingfundir eru sjaldan haldnir þessa dagana, það kemur sér vel fyrir ríkisstjórnina að hér skuli fá tækifæri gefast til umræðna í þingsal, á meðan þingstörfum er haldið í lágmarki. En ég hlýt að nota málfrelsi mitt sem þingmaður á Alþingi Íslendinga til að mótmæla því að hér skuli sitja stjórnvöld og fjármálaráðherra, æðsti yfirmaður skattsýslunnar í landinu, hafandi gefið skýringar sem ekki standast þær upplýsingar sem fram hafa komið í málinu og hafandi eigin hendi undirritað löggerninga sem sýna það og sanna að honum var fullkunnugt um aflandsfélag sitt á Seychelles-eyjum.

Ég mótmæli þessu, virðulegi forseti, og kýs að nota málfrelsi mitt hér í dag til að koma því á framfæri.


Efnisorð er vísa í ræðuna