145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil enn kvarta yfir þeim dónaskap sem ríkisstjórnin sýnir þingmönnum og reyndar þjóðinni allri með því að kveða ekki upp úr með hvenær á að efna til kosninga og hvernig þingstörfum verður hagað á næstu vikum. Það er ekki einkamál okkar þingmanna hvernig lög eru afgreidd eða hvað er gert á þessum stað. Svo virðist stundum sem þeir sem hafa verið kjörnir til Alþingis haldi að lagasetning og það sem hér fer fram sé eitthvert einkamál okkar. Það er mikill misskilningur. Við erum hér að vinna fyrir fólkið í landinu. Það verður að bera traust til þess að við gerum það almennilega og að við höfum einhverja sýn á það hvernig vinnan á að ganga fram en ekki bara að þetta sé svona eins og eitthvert „happening“. Ég biðst afsökunar á orðbragðinu, virðulegi forseti.

Ég kalla enn eftir því að ríkisstjórnin segi hvenær eigi að kjósa og komi síðan með þau forgangsmál sem hún telur nauðsynlegt að verði afgreidd áður en til kosninga kemur. Það er ekki bara fyrir okkur þingmenn, það er fyrir fólkið í þessu landi, minnst fyrir okkur en við þurfum hins vegar að inna af hendi þau verk sem þarf til að lög séu fest í landinu.

Í því sambandi vek ég athygli á mjög merkilegu máli sem verður til umræðu á eftir, um almennar leiguíbúðir, frumvarp sem lengi hefur verið beðið eftir. Það tók hæstv. húsnæðismálaráðherra næstum þrjú ár að koma frumvörpunum hingað inn þó að þau hafi verið næstum tilbúin þegar hún settist í ráðherrastól. Nefndaráliti fyrir þetta mikla mál var útbýtt (Forseti hringir.) klukkan níu eða tíu í gærkvöldi. Hvers konar vinnubrögð eru þetta?


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna