145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[11:41]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég taka undir og fagna því að velferðarnefnd skuli hafa lokið þessari vinnu og það er líka fagnaðarefni að nefndin öll stendur að baki þessum breytingartillögum. Ég verð þó líka að segja, virðulegi forseti, að það er kannski dæmi um frumvarpið sem slíkt að það er dálítið fátítt að svo miklar breytingartillögur komi fram um frumvarp frá ráðherra. Mér sýnist að hv. velferðarnefnd sé hreinlega að skrifa nýtt frumvarp. Meira að segja er fyrirsögninni er breytt, það er dálítið sjaldgæft, þannig að lítið stendur eftir af upphaflegu áformunum. En sjónarmiðin sem hér hafa komið fram í málamiðlun milli fulltrúa allra flokka eru kannski virðingarverð. Það eru nokkur atriði sem mig langar að spyrja út í.

Hv. þingmaður hefur verið iðin við það á þessu kjörtímabili undir liðnum störf þingsins, að tala um verðtrygginguna og afnám hennar. Það var aðalkosningaloforð Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar og ég held að Framsóknarflokkurinn hafi fengið mikið af sínu fylgi út á það loforð. Því spyr ég hv. þingmann: Hvar stendur loforðið um verðtryggingu og afnám hennar, eins og Framsóknarflokkurinn lofaði? Öll þau góðu áform sem hér eru sett fram verða smituð af verðtryggðum lánum og ákveðnum grunni sem þar er. Ég minni hv. þingmann líka á það sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala oft um, þ.e. stýrivexti Seðlabankans sem þeim finnast allt of háir og hafa áhrif á allt.

En spurning mín til hv. þingmanns er: Hvað líður frumvarpi um afnám verðtryggingar? Hvar strandar það mál?