145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[11:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni, talsmanni velferðarnefndar, fyrir framsöguna en vil gera athugasemdir við eitt sem hún lagði nokkra áherslu á í máli sínu, sérstaklega í lok ræðunnar, það er að annað frumvarp um húsnæðisbætur sem nú er til skoðunar í velferðarnefnd, sé á einhvern hátt óaðskiljanlegur hluti þessa frumvarps. Efnislega liggur málið ekki þannig fyrir. Mér er að vísu ljóst að ríkisstjórnin gaf aðilum vinnumarkaðarins fyrirheit um bæði átak í byggingu félagslegra leiguíbúða og um að auka stuðning við leigjendur. En ef staðreyndir málsins eru skoðaðar hefur stuðningur við leigjendur á næstu missirum ekkert með þetta nýja fyrirkomulag að gera vegna þess að það flytur ekki nokkur maður, eða a.m.k. algjörlega sárafáir, inn í íbúð næstu missirin sem byggð verður á grundvelli þessa nýja fyrirkomulags. Það er ljóst. Stuðningur við leigjendur frá og með deginum í dag, og þótt fyrr hefði verið, og næstu missirin, verður til leigjenda sem búa í því húsnæði sem fyrir er eða í öðru leiguhúsnæði, vegna þess að ekki verða byggðar nýjar íbúðir á einum degi á grundvelli þessa kerfis jafnvel þótt það verði að lögum fyrir sumarið. Það mun taka einhver missiri að hrinda slíkum áformum í framkvæmd og/eða hefja undirbúning að því að ný félög, nýstofnuð eða önnur, geti keypt notað húsnæði í þetta kerfi, sem iðulega væri þá húsnæði sem leigjendur byggju í hvort sem er.

Ef þetta er skoðað efnislega á að aðgreina það að stuðningur við leigjendur hefur sitt sjálfstæða gildi alveg óháð því hvort þetta frumvarp verður samþykkt eða ekki og öfugt. Að sjálfsögðu hefur það gildi að drífa þetta frumvarp í gegn til þess að menn geti hafist handa, en það er rangt að stilla málinu þannig upp að það hafi ekki gildi að afgreiða frumvarpið þó að niðurstaðan með húsaleigubæturnar kunni að verða einhver önnur og í raun og veru (Forseti hringir.) öfugt.