145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[11:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér er alveg ljóst að menn vilja nota tenginguna við kjarasamninga til að þrýsta á um afgreiðslu þessara mála. Eins og ég tók fram þá skil ég hana, hún er til staðar. En efnislega breytir það engu um að málin eru svona vaxin eins og ég fór yfir. Það getur enginn mótmælt því. Það er þannig að það mun taka einhver missiri að byggja fyrstu íbúðirnar í hinu nýja fyrirkomulagi og áfram verða leigjendur í landinu búandi í leiguhúsnæði. Það er líka þannig með upptöku húsnæðisbótanna, kerfisbreytingu yfir í fyrirkomulag húsnæðisbóta, að það mun taka að lágmarki hálft ár eftir lögfestingu lagaákvæðanna að hrinda því kerfi í framkvæmd, ég tala nú ekki um hjá einhverjum nýjum framkvæmdaraðila.

Vilji menn gera eitthvað fyrir leigjendur er það sjálfstætt mál og ég hef margbent á það í umræðum um þetta í allan vetur að nærtækast væri að hækka húsaleigubætur í bili og útbúa þá hækkun þannig að hún rímaði svo vel við (Forseti hringir.) niðurstöðuna sem kann að verða þegar húsnæðisbæturnar koma til sögunnar.