145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[12:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil eins og félagar mínir í velferðarnefnd lýsa ánægju með vinnu nefndarinnar að þessu mikilvæga frumvarpi. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum að sjálfsögðu í samræmi við okkar stað í hinu pólitíska litrófi mjög hlynnt því að byggt sé upp kerfi félagslegra lausna í húsnæðismálum og höfum lagt það til og barist fyrir því ásamt með því að tekið sé á vanda ungs fólks sem þarf að komast yfir sitt fyrsta íbúðarhúsnæði. Það er grundvöllur okkar stefnu þannig að af sjálfu leiðir að við tókum vel á móti þessu frumvarpi og vorum tilbúin til að vinna að því þegar það loksins birtist eftir næstum heil þrjú ár í setu þessarar ríkisstjórnar og mikil fyrirheit.

Eins og málsskjölin bera með sér lagði velferðarnefnd gríðarlega vinnu í þetta mál og stjórnarandstaðan lét þar ekki sitt eftir liggja. Það má sjá í nefndarálitinu, mjög ítarlegu nefndaráliti, og í breytingartillöguskjali sem liggur nú við að sæti tíðindum því að þar er breytt nánast hverri einustu grein frumvarpsins og allmargar þeirra endursamdar. Breytingartillöguskjalið er upp á tíundu blaðsíðu og það endurspeglar þá miklu og nákvæmu vinnu sem nefndin fór í gegnum í þessu máli og reyndist þörf á, því að ég held að blasað hafi við, eins og ég fullyrti reyndar í 1. umr., að óbreytt hefði frumvarpið algerlega misst marks og ekki náð tilgangi sínum. Það var þegar ljóst af þeirri staðreynd að stóru starfandi byggingaraðilarnir sem eru með félagslegt húsnæði innan sinna vébanda í dag sáu sér tæpast fært að taka þátt í kerfinu nema á því yrðu gerðar grundvallarbreytingar miðað við frumvarpið. Það hefur velferðarnefnd gert.

Markmið frumvarpsins eru að sjálfsögðu góð og veitir ekki af, eins og ástandið á fasteignamarkaði og í húsnæðismálum landsmanna er, að auka framboðið á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum fyrir tekjulægri hluta samfélagsins. Ástandið í húsnæðismálum landsmanna kallar á sérstaka umræðu og ég ætla ekki að eyða tímanum í það hér, þótt mér finnist á köflum að Alþingi hafi eytt meiri tíma í aðra minna mikilvæga hluti en þennan gríðarlega stóra málaflokk og hversu afdrifaríkur hann er fyrir þróun samfélagsins. Það að þessi mál séu í ólestri, viðvarandi ólestri, árum saman heftir auðvitað eðlilegan framgang og þróun íslensks samfélags. Það á sinn þátt í því að ungu fólki finnst ekki nógu spennandi að veðja á framtíðina í þessu landi. Þannig mætti lengi telja.

Þetta vandamál er uppi bæði á höfuðborgarsvæðinu auðvitað í stórum stíl og í helsta þéttbýlinu á suðvesturhorninu, en líka á landsbyggðinni en í annarri mynd eða í öðru samhengi. Það er húsnæðisvandi vítt og breitt um Ísland, en hann er af ólíkum ástæðum. Á höfuðborgarsvæðinu er vandinn fyrst og fremst skortur á húsnæði, uppspenntur markaður og allt of hátt verð. Á landsbyggðinni eru aðstæðurnar hins vegar þannig að fasteignaverð er svo lágt og langt á eftir stofnkostnaðarverði húsnæðis að menn veigra sér við að byggja nýtt húsnæði og taka áhættuna af þeim mikla mun sem er á milli stofnkostnaðarins, byggingarkostnaðarins, og endursölu á markaði. Það leiðir til þess að í fjölmörgum byggðum landsins þar sem sárvantar húsnæði og eru uppbyggingar- og þróunarmöguleikar gerist ekki neitt vegna þess að ekkert húsnæði er í boði. Hér í þéttbýlinu veldur þetta því að aðstæður ungs fólks og tekjulægra fólks eru gjörsamlega óboðlegar hvað varðar húsnæðisöflun og húsnæðiskostnað.

Allt sem má verða til þess að lina eitthvað þennan vanda, eins og ég bind vonir við að þetta mál geri, reynir maður að sjálfsögðu að hjálpa til við. Hafandi sagt það, herra forseti, þá held ég að einhverjir sem eru að hnýta í Alþingi þessa dagana og vikurnar og tala um óboðleg vinnubrögð mættu aðeins setjast yfir það hvernig þingið hefur tekið á þessu risavaxna máli. Hverju er verið að skila hér í þverpólitískri samstöðu í mjög viðkvæmu máli (Gripið fram í: Heyr, heyr.) þar sem meira að segja stjórnarflokkarnir sjálfir voru verulega ósamstiga eins og við vitum? Við höfum náð að leiða fram með mikilli vinnu, gríðarlegri vinnu, í velferðarnefnd breiða pólitíska samstöðu á bak við þetta mál. Þetta mega menn nú hafa í huga þegar þeir eru að hnýta í okkur hér. (Gripið fram í: Nákvæmlega.)

Þá að þeim breytingum sem eru veigamestar í þessu frumvarpi. Í fyrsta lagi tel ég mjög mikilvægt að við nálguðumst málið út frá þeim sjónarhóli að gera stórum og sterkum starfandi félögum á félagslegum húsnæðismarkaði kleift að koma sér fyrir í hinu nýja kerfi. Við gerðum nauðsynlegar breytingar til þess. Vegna þess að hver átti að byggja í þessu kerfi ef Félagsbústaðir í Reykjavík, Félagsstofnun stúdenta, Brynja – hússjóður Öryrkjabandalagsins og aðrir slíkir hefðu ekki séð sér það fært? Það hafði vissulega sterk áhrif á vinnuna, a.m.k. á þann sem hér talar, að þannig yrði að búa um þetta að við gætum nýtt okkur í framhaldinu styrk þeirra aðila sem við þó eigum og eru sæmilega sterkir. Meðal annars af þeim sökum vikum við til hliðar hugsuninni um að gera upp hvern byggingaráfanga sjálfstætt og láta leiguna þar standa alveg undir hverjum og einum áfanga innan hvers árs eins og hugsun frumvarpsins var. Það hefði steindrepið þetta því að þessir kostir voru ekki boðlegir fyrir stór og breið félög með stórt íbúðasafn og langa sögu að baki, að hluta til afskrifað húsnæði, og svo þau sjónarmið að standa vörð um félagslega blöndun og að jafna leigu eftir atvikum þannig að hún sé sæmilega sanngjörn í samræmi við það húsnæði sem í boði er.

Við breyttum ákvæðum um svokallaðan framkvæmdasjóð húsnæðissjálfseignarstofnana, sem hér eftir verða væntanlega kallaðar svo, í viðhaldssjóð. Við erum sammála því að rétt sé að mæla fyrir um það að félögin eigi að leggja reglubundið til hliðar fyrir viðhaldi og endurbótum. En við teljum ekki hyggilegt að þau eigi að láta nánast allt sitt eigið fé liggja lokað inni í slíkum sjóð. Þau þurfa sjálf að eflast líka. Þess vegna held ég að þetta sé góð breyting sem geri kerfið sjálfbærara en ella.

Það tengist við þá grundvallarbreytingu sem við fengum ríkisstjórn til að fallast á, að stofnframlög ríkisins viðhaldast innan kerfisins um aldur og ævi. Þegar þau koma til endurgreiðslu að upphaflegu fjármögnunarlánunum uppgreiddum ganga þau í Húsnæðismálasjóð. Þar byggist því upp mikill félagsauður og styrkur fyrir kerfið. Hann byggist fyrr upp en ella svo munar 15–20 árum. Í staðinn fyrir að ríkið fái í fyllingu tímans stofnframlögin endurgreidd beint til sín og eftir atvikum haldi áfram að gefa út ný vilyrði fyrir stofnframlögum þá færist þetta inn í að kerfið sjálft byggist upp og verði sjálfbært.

Við gerðum breytingar sem tengjast auðvitað mjög þeim markmiðum frumvarpsins að leiguverð eða húsnæðiskostnaður verði að jafnaði ekki umfram fimmtung til fjórðung af tekjum þeirra sem í hlut eiga. Það er eitt af markmiðum þessarar aðgerðar. Við viljum færa það inn í lögin sjálf þannig að það liggi skýrt fyrir. En við horfumst í augu við það að mjög tæpt er að þessi markmið náist. Að frumvarpinu óbreyttu hefði þau ekki gert það. Á grundvelli þess reikniverks sem fylgdi frumvarpinu frá ráðuneytinu og unnið var af félaginu Analytica þá voru þau markmið ekki í sjónmáli. Það er alveg ljóst að leigan hefði orðið 30–40%, ef ekki meira, af ráðstöfun þeirra tekjulægri innan hópsins ef lánin hefðu aðeins verið til 30 ára, tala nú ekki um það, og ef ekki hefði mátt með einhverjum hætti búa betur að hinum tekjulægri innan hópsins.

Við höfum þar af leiðandi gengið frá þessu og leggjum til að ramminn utan um lánstímann, þau 70% sem tekin verða til þess að fjármagna það sem upp á vantar eftir að stofnframlög hafa komið, verði til 50 ára. Með því tel ég að við séum meira og minna að ákveða að stofnfjármögnunin verði ekki greidd til baka nema á 50 árum því að menn muni, jafnvel þótt þeir taki styttri lán, augljóslega sjá sér hag í því í mörgum tilvikum að framlengja þau og nota 50 árin til að greiða þau upp. Það hefur gríðarleg áhrif á leiguna til lækkunar.

Í öðru lagi gerum við þá breytingu að við setjum í raun aftur inn tillögu sem var í vinnunni en féll fyrir borð, að heimilt sé að bæta við 4% stofnframlagi frá ríkinu þegar verið er að byggja fyrir hina tekjulágu innan sveitarfélaganna, námsmenn og öryrkja. Og, sem er mjög mikilvægt, þessi viðbót er óafturkræf. Hún er beint framlag sem þar af leiðandi kemur mönnum til góða og er mjög verðmæt vegna þess að þeir fjármunir koma strax við byggingu eða kaup íbúðarinnar og ekki þarf að taka lán fyrir þeim, enga vexti að borga af þeim og þau verða aldrei aftur krafin.

Svipað á við um þær ráðstafanir sem við gerum í frumvarpinu til að opna möguleika fyrir að þetta nýtist mönnum á landsbyggðinni, á þeim svæðum þar sem mestir eru erfiðleikarnir. Þeir eru þar sem vantar húsnæði og það er ótrúlega víða, satt best að segja. Jafnvel í byggðarlögum sem hafa verið þekkt í fjölmiðlum fyrir að eiga við vanda að stríða þá vantar samt húsnæði af ástæðum sem eru fjölmargar, m.a. þær að það hefur nánast ekkert verið byggt í 30 ár á mörgum svæðum á landinu. Það er ásókn í að eiga þar sumarhús og eitthvað af húsnæðinu teppist þannig. Það er samkeppni við vaxandi ferðamennsku sem leggur undir sig eitthvað af þessu húsnæði. En aðalástæðan er auðvitað sú að það er svo mikil áhætta að byggja með fullum kostnaði íbúð og taka lán fyrir henni eða ganga í ábyrgðir fyrir henni ef um væri að ræða byggingaraðila eða sveitarfélag, vitandi það að markaðsverð er kannski helmingurinn af stofnverðinu, að menn leggja ekki í það og fjármögnun er að sjálfsögðu erfið og dýr við þær aðstæður. Þess vegna leggjum við til að ríkinu sé heimilt að bæta allt að 6% við sitt stofnframlag og sveitarfélögunum 4% við sitt á svæðum þar sem svona háttar til, það vantar leiguhúsnæði, lítið er byggt, erfiðleikar við fjármögnun og aðstæður á fasteignamarkaði svona snúnar.

Sömuleiðis er það sett inn að Íbúðalánasjóður hefur heimild til að líta sérstaklega til byggðasjónarmiða þegar hann velur úr umsóknum og forgangsraðar því hverjir skuli fá ef fleiri sækja um en fjármunir eru til. Þá erum við með í huga t.d. byggðarlög þar sem augljóslega er í farvatninu atvinnuuppbygging og mun skorta verulega húsnæði á næstu árum en enginn treystir sér til að byggja það nema hann fái til þess einhvern svona stuðning, þannig að það hefti ekki möguleika byggðarlaga. Tökum sem dæmi aðstæður eins og á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem núna er ánægjulega mikil uppbygging í kringum fiskeldi og vantar húsnæði. Þá er það þjóðhagslega, félagslega og byggðarlega skynsamlegt að líta til þess.

Má ég þá minna á að þessar breytingar skipta miklu máli í sambandi við að reyna að halda inni markmiðunum um að leigutekjurnar fari ekki yfir fimmtung til fjórðung af tekjum. Fleira er í reynd gert af okkar hálfu til að reyna að tryggja það, svo sem eins og að fallast ekki á óskir sveitarfélaganna um að stofnframlögin verði lögð við eða á veðrétti framan við grunnlán íbúðanna. Það mundi þyngja fyrir fjármögnuninni og þess vegna verða sveitarfélögin og ríkið að leggja sitt af mörkum í þeim efnum og bíða þolinmóð með stofnframlögin á öðrum veðrétti og vaxtalaust þangað til upphaflegu lánin hafa verið greidd upp. Það er í reynd hinn eiginlegi stuðningur vegna þess að úr því að niðurstaðan varð sú að stofnframlögin væru ekki framlög heldur í eðli sínu víkjandi lán, víkjandi vaxtalaust lán eða lán á 2. veðrétti án vaxta, er stuðningurinn í reynd fyrst og fremst fólginn í því að þau eru reidd fram sem fjármunir eða ígildi þeirra af hálfu sveitarfélagsins í formi lóða eða gjaldaafslátta. Þau lækka þar af leiðandi það sem þarf að fjármagna og taka að láni niður í 70% eða jafnvel meira og þau bíða þolinmóð án vaxta á meðan hin lánin eru greidd upp. Það þarf ekki nema að hámarki 70% veðsetningu miðað við verðmæti viðkomandi eignar sem verið er að byggja eða kaupa. Þetta ætti að létta félögunum mjög róðurinn við fjármögnun og tryggja betri kjör en ella.

Hafandi þó sagt það er alveg ljóst að ný félög án verulegs beins eiginfjárframlags frá eiganda munu þurfa að hafa verulega fyrir því að fá fjármögnun og komast af stað. Staða þegar starfandi gróinna félaga er að sjálfsögðu miklu sterkari í þessum efnum. Eins og við erum að gera breytingar í þeirra þágu á frumvarpinu þá er ég orðinn bjartsýnn á að þeim muni standa til boða tiltölulega hagstæð fjármögnun á sínum hlut í byggingu í þessu nýja kerfi og er það vel.

Þá vil ég nefna 18. gr. frumvarpsins sem ég var mjög ósáttur við eins og hún kom fram og gerði strax við 1. umr. alvarlegar athugasemdir við. Þar var lögð rík áhersla á ýtrustu hagkvæmni en síðan talað um að íbúðirnar þyrftu að vera svona ásættanlegar fyrir þá sem í þeim ættu að búa. Það var lítill metnaður í því orðalagi. Ég gat ekki sætt mig við það og lýsti því strax yfir í velferðarnefnd að ég mundi aldrei samþykkja þetta svona. Það skal ekki verða á Íslandi árið 2016 að við förum að veita verulegan afslátt af gæðum þess húsnæðis sem hið opinbera ætlar að aðstoða tekjulágt fólk í landinu við að komast inn í. Það skal ekki verða. Þess vegna hentum við út öllu sem gat vísað í áttina að einhverjum slíkum afsláttarhugsunarhætti og settum inn að íbúðirnar skyldu uppfylla þarfir tímans og horfa líka til framtíðarnýtingar. Erum við þá sérstaklega með breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar í huga, þ.e. að íbúðirnar aðrar en þær sem byggðar eru fyrir námsmenn á afmörkuðu æviskeiði skuli taka mið af því að þjóðin er að eldast og að við viljum að menn geti elst í sínu húsnæði og búið heima hjá sér og fengið aðstoð þangað ef þeir þurfa á henni að halda. Þannig skal það verða. Þar eru á ferðinni mjög góðar breytingar og afar skýr stefnumörkun af hálfu Alþingis.

Síðan er það auðvitað fjölmargt fleira, virðulegur forseti, sem mætti tína til. Sú grundvallarbreyting að stofnframlög ríkisins gangi inn í Húsnæðismálasjóð og byggi hann upp er mjög mikilvægt. Í staðinn varð það okkar niðurstaða að henda út einhverju umsýslugjaldi sem yrði rukkað inn upp á 100 kr. á fermetra í íbúð og lækka þann hluta af leigutekjum félaganna eftir að þau hafa greitt upp lán og stofnfé eða stofnframlög sem áður áttu að ganga að uppistöðu til inn í Húsnæðismálasjóð eða tveir þriðju hlutar niður í 40%. Það þýðir að félögin eflast líka sjálf þegar þau eru komin inn á það æviskeið að þau hafa borgað niður fyrstu fjárfestingar sínar og eru farin að njóta góðs af því að vera með afskrifað húsnæði eða skuldlítið húsnæði sem færir þeim tekjur af að leigja út.

Það er mikilvægt að báðir aðilar verði sjálfbærir í kerfinu, félögin og Húsnæðismálasjóður. Þannig þarf það að vera. Það er ekki skynsamlegt að haga því þannig að t.d. Húsnæðismálasjóðurinn einn byggist upp en rekstraraðilar íbúðanna, eigendurnir, séu á brauðfótum. Þess vegna held ég að þarna séum við að leggja til breytingu sem sé mjög til bóta.

Vonandi verður það svo að nú verða byggðar í framhaldinu á næstu árum nokkur þúsund íbúðir og það lagar ástandið eitthvað örlítið, óviðunandi ástand, á fasteignamarkaði eða í húsnæðimálum vítt og breitt í landinu. Það er þó því miður þannig að t.d. eins og fasteignaverð er orðið á höfuðborgarsvæðinu er erfitt um vik. Við rákum okkur náttúrlega rækilega á það þegar í ljós kom að fermetraverð sem menn lögðu til grundvallar útreikningunum var fullkomlega óraunhæft, um 274 þús. kr. á fermetra í 50 fermetra íbúð á höfuðborgarsvæðinu þegar rauntölurnar eru nær 400 þús. kr. Það munar nú um minna en hvort íbúðin kostar 14 millj. kr. eða 20 millj. kr., ekki satt? Þess vegna eru markmiðin um að fimmtungur til fjórðungur af tekjum dugi mjög tæp þrátt fyrir þær breytingar sem við erum að gera. En við verðum að vona hið besta.

Nú er það þannig að enginn maður mun flytja inn í nýbyggða íbúð á grundvelli almennra félagsíbúða fyrr en árin 2018, 2019 í besta lagi. Þetta kemur því ekki í þeim skilningi til með að hafa mikil áhrif inn á markaðinn fyrr en eftir tvö, þrjú ár. Það verður ríkisstjórnin líka að bíta í sitt súra epli með. Það þýðir ekkert að horfa fram hjá staðreyndunum í því. Því miður hefur frekar dregið úr íbúðarbyggingum en hitt vegna þess að 37. gr. laga um húsnæðismál hefur ekki verið virkjuð með því að leggja fjármuni til hliðar til að veita vaxtaniðurgreidd lán.

Engu að síður vona ég að hér sé lagður grunnur að kerfi sem í fyllingu tímans muni gagnast Íslandi vel og sérstaklega tekjulágu fólki sem býr við þröngan kost í þeim efnum. Það er mikið á sig leggjandi fyrir það.

Þess vegna er ég stoltur af þeim breytingum sem við erum hér að leggja til, ánægður með vinnuna í velferðarnefnd, og vona að maður (Forseti hringir.) eigi eftir að minnast þess með hlýhug síðar meir að hafa átt þátt í því að koma þessu af stað.