145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[13:00]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú gott að geta komið hér og sagt að þetta er ekki að tillögu sjálfstæðismanna eingöngu, þó að þeir hafi haft skoðun á því að frumvarpið ætti ekki að heita frumvarp til laga um almennar íbúðir, heldur var annar ágætur íslenskufræðingur í nefndinni, hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, sem ræddi það nokkuð oft að það heiti gæti ekki gengið vegna þess að þetta væri annars konar form á íbúðum en almennar íbúðir sem byggðar eru í blokk á frjálsum markaði og fólk kaupir eða leigir. Þess vegna var hugmyndin sú að aðgreina og skilgreina þyrfti nákvæmlega í hverju þessar íbúðir væru fólgnar. Fram komu ýmsar hugmyndir, m.a. almennar stofnframlagaíbúðir. Það er ljótt. Ekki var hægt að kalla þetta almennar íbúðir vegna þess að almennar leiguíbúðir eru líka á frjálsum markaði og heyra ekki undir það kerfi sem hér er á ferðinni. (HBH: Af hverju ekki bara almennar íbúðir?) Hv. fyrirspyrjandi spyr: Af hverju ekki bara almennar íbúðir? Það er vegna þess að gerður er greinarmunur á því formi sem hér er og öðru formi, þ.e. verið er að byggja leiguíbúðir fyrir tekjulægra fólk, en venjulegar almennar íbúðir eru byggðar á frjálsum markaði. Þetta er niðurstaða nefndarinnar, almennar félagslegar íbúðir, og íbúðafélögin sem eiga þær kallast húsnæðissjálfseignarstofnanir, skammstafað hses.