145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[13:32]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Við ræðum loks nefndarálit um frumvarp til laga um almennar íbúðir, frumvarp sem hefur verið lengi í smíðum og lengi verið beðið eftir. Það er því með vissri gleði sem maður stendur hér og tekur til máls í þessu máli. Ég held að það hafi samt ekki farið neitt illa á því að þeir fjórir hv. þingmenn sem voru á undan mér hafi talað fyrst vegna þess að ég held að á engan sé hallað í hv. velferðarnefnd Alþingis að það sé það fólk sem hefur borið hitann og þungann af þessu máli og hefur verið vakið og sofið yfir því að koma málinu í gegn.

Margir hafa kvartað yfir tímanum sem farið hefur í þetta. Ég er ekki alveg sammála því. Vissulega kom fram á fyrstu stigum þegar verið var að kynna frumvarpið fyrir velferðarnefndinni af fólki úr velferðarráðuneytinu að aldrei áður hefði verið haft annað eins samráð um frumvarp og þetta. Það kom mér spánskt fyrir sjónir sem nýjum þingmanni til að byrja með hversu ítarlegar og langar umsagnir voru um frumvarpið og kannski vegna þess að búið var að hafa gríðarlega mikið samráð um það.

En það hefur komið fram í máli hv. þingmanna sem hér hafa talað, eins og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, formanns velferðarnefndar, að breyta þurfti miklu. Það segir sig náttúrlega sjálft að þegar breytingartillögur eru upp á tíu síður að taka varð þær til gagngerrar endurskoðunar og gera það það vel úr garði að nánast skothelt væri.

Það virðist vera komin niðurstaða í að frumvarpið er nánast skothelt, sem er gríðarlega gleðilegt. Ekki síst að allir nefndarmenn skuli vera á nefndaráliti. Ég tel það gríðarlegt afrek í jafn stóru máli og þetta er. Hv. þingmenn sem hafa haldið hér ræður áður sýna að hægt er að gera ýmislegt þegar viljinn er fyrir hendi og samvinnan er góð. Ég verð að segja, þó að það sé kannski ekkert rosalega viðeigandi, ég er bara stoltur að því að vera hluti af þeirri nefnd sem tók þátt í að afgreiða þessi mál.

Ég nefni líka önnur mál vegna þess að við afgreiddum fyrr í vetur mál um húsnæðissamvinnufélög einróma. Þetta eru ein stærstu málin sem núverandi ríkisstjórn hefur sett fram, þ.e. húsnæðismálin. Þau eru líka liður í kjarasamningum sem gerir að verkum að mjög nauðsynlegt er að um þau ríki sátt og mikil samvinna sé höfð um þau og sátt ríki.

Nú hafa þeir þingmenn sem hér hafa talað farið í gegnum frumvarpið mjög ítarlega og þær breytingar sem á því hafa verið gerðar. Ég ætla ekki að fara að hætta mér í það vegna þess að ég hef ekki sömu þekkingu og þeir í því. En ég tek heils hugar undir allt sem hefur verið sagt. Fyrsta málið var nafnabreytingin og töluverð umræða varð um það í nefndinni. Fyrir mér skiptir engu máli hvað þetta frumvarp heitir, fyrir mér er markmiðið aðalatriðið.

Mig langar til að vitna aðeins í umsögn Alþýðusambands Íslands, ASÍ, sem var ekki mjög löng. Þeir höfðu náttúrlega áhyggjur af því hversu miklar umsagnir komu á sínum tíma en umsögn þeirra var bara ein síða og með leyfi forseta langar mig aðeins að lesa úr henni:

„Frumvarpið er afrakstur víðtæks samráðs. Það byggir í grundvallaratriðum á þeirri stefnu sem Alþýðusambandið markaði sér haustið 2012 og sem kynnt var og útfærð í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Frumvarpið er enn fremur liður í aðgerðum ríkisstjórnar Íslands til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, samanber yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28. maí 2015. Framgangur þess er jafnframt mikilvægur þáttur þeirrar heildarlausnar sem aðilar vinnumarkaðar leita nú við endurskoðun kjarasamninga og sem ljúka þarf nú á fyrstu vikum ársins. ASÍ leggur mikla áherslu á að með þessu frumvarpi er lagður mikilvægur grunnur að því að hér myndist með tíð og tíma mikill félagsauður í formi íbúða fyrir tekjulága einstaklinga og tekjustreymi af húsaleigu þegar stofnlán hafa verið endurgreidd sem duga munu til þess að tryggja fjármögnun nýrra íbúða til að mæta þörfum nýrra kynslóða.“

Og ASÍ styður framgang málsins eindregið. Þetta er það markmið sem hefur verið lagt upp með og þetta er gríðarlega göfugt og gott markmið því að eins og við vitum er staðan í húsnæðismálum á Íslandi mjög slæm. Hún er eins og fram kom áðan í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar nánast galin.

Markmiðið er líka, sem er kannski svona undirmarkmið en kannski aðalmarkmiðið, að fólk geti leigt íbúðir og ekki meira en 20–25% af tekjum fari í það. Þetta er mjög göfugt markmið, maður þarf ekki að leita langt yfir skammt til að finna það hvernig staðan er á þessum markaði hjá ungu fólki sem er að hasla sér völl í lífinu. Ég á dóttur sem borgar 40–50% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Það er gjörsamlega galið.

Þess vegna er þetta ofboðslega gott og mikilvægt frumvarp sem við erum vonandi að fara að samþykkja á næstu dögum. Ég tek heils hugar undir með öllum þeim sem hafa talað hér og rætt þetta. Þetta er mjög gott frumvarp sem mun vonandi leiða til mikillar — hvað á ég að segja, að mun betra ástand verði á húsnæðismarkaði á Íslandi. Þetta er lykilatriðið í því einmitt að mæta þörfum ungs fólks. Ég sagði að ég ætlaði ekki að — ég hef reyndar oft sagt það þegar ég hef verið spurður um þessi mál, ég hef reyndar ekki verið spurður mikið af fréttamönnum um málið því að einhugur hefur verið í nefndinni um að vinna málið vel áfram og vera ekki að tjá sig mikið um það fyrr en það lægi fyrir, en ég hef þrátt fyrir það samt miklar áhyggjur af húsnæðismálum og þessu kerfi vegna þess að við búum við íslensku krónuna.

Mig langar líka að vitna í hagfræðing sem skrifaði grein í Fréttablaðið 12. janúar. Þröstur Ólafsson heitir hann, hagfræðingur, og hann segir, með leyfi forseta:

„Ekki má gleyma garminum honum Katli, þegar rætt er um fráhrindandi aðstæður fyrir ungt menntað fólk til að setjast að á Íslandi. Þar á ég við íslensku krónuna, sem fengið hefur þá heiðursnafnbót frá forsætisráðherra [þáverandi] að vera sterkasti gjaldmiðill í heimi. Það er ekkert sérstakt afreksverk að gjaldmiðill sem býr við ströng gjaldeyrishöft og er hvergi nothæfur utan eigin lands, haldist þokkalega stöðugur. Til þess eru höftin. Þrátt fyrir þessa algjöru einangrun og vernd þarf krónan háa vexti svo hún geti staðið undir því verkefni, að halda verðbólgu í skefjum. Gjaldeyrishöftin koma heldur ekki í veg fyrir að mörg mismunandi gengi eru á krónunni.“

Síðan telur hann upp hin ýmsu gengi. Hann segir líka, með leyfi forseta:

„Sennilega hefur enginn einn hluti íslenska hagkerfisins „féflett“ Íslendinga meir í gegnum árin en krónan. Það er hún sem gerir ungu fólki erfitt með að búa hér, þótt það hafi vinnu. Hún er svo dyntótt og dýr, hvort sem hún er óverðtryggð eða verðtryggð. Hún gengur af öllum húsnæðiskerfum dauðum.“

Þetta eru þær áhyggjur sem ég hef af húsnæðismálum á Íslandi, það er íslenska krónan því að hún gengur nánast af öllu dauðu hér. Ég vona og ber þá einlægu von og ósk í brjósti að frumvarpið verði til langs tíma litið kannski byrjunin og lykillinn að góðu húsnæðiskerfi á Íslandi þar sem ungt fólk sér ástæðu til að búa hérna og þar sem maður sér ekki meiri partinn af ráðstöfunartekjum fara í leigu og eins og staðan er í dag.

Ég vil enn og aftur ítreka þakkir mínar til nefndarinnar, formanns nefndarinnar, hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, og ekki síst til framsögumannsins, hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, sem hefur greinilega unnið frábært starf sem framsögumaður í málinu. Það er erfitt að vera nýr þingmaður og þurfa að takast á við svona gríðarlega erfið verkefni. Hún hefur leyst það af stakri snilld, segi ég. Síðan langar mig líka að nefna, hann hefur verið nefndur hér áður, nefndarritarann okkar, Gunnlaug Helgason, sem hefur sýnt ótrúlega þolinmæði og æðruleysi í þessu starfi og unnið frábært starf. Ekki síst hefur hann komið fram með góðar tillögur og lagt til breytingar og gefið okkur ráð. Eins og ég nefndi í byrjun ræðunnar báru þeir fjórir þingmenn sem töluðu hér fyrst hitann og þungann af þessu. Þeir eiga allt gott skilið.

Ég vil að lokum segja, herra forseti, að ég er stoltur af því að hafa tekið þátt í þessu verki. Mitt framlag var kannski ekkert rosalega mikið hvað varðar breytingar og annað og það helgast bara af því að ég hef ekki eins mikla þekkingu á þessu og margir aðrir og ég skammast mín ekkert fyrir að segja frá því. En að sitja umliðna mánuði og vinna þessa vinnu hefur verið gríðarlega dýrmætur skóli. En stoltastur er ég af því að við skyldum gera þetta saman og sýna fólki fram á að hér er unnið gott starf þrátt fyrir að margir vilji meina annað. Mikill einhugur ríkti í nefndinni, í vinnunni, og það var frábært að fá að taka þátt í því.