145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[13:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er eiginlega ekki að koma í andsvar heldur bara til að þakka hv. þingmanni fyrir falleg orð í garð okkar nefndarmanna. Ég tel að velferðarnefnd sé einstaklega vel skipuð fólki. Þar er allt hið pólitíska litróf en allir sem í nefndinni sitja vilja vinna vel og ná sameiginlegri niðurstöðu ef þess gefst kostur og það ríkir einstaklega góður samstarfsandi í nefndinni. Auðvitað getum við ekki verið sammála í öllum málum eða samferða eins og gengur en við reynum eftir fremsta megni að vinna mál þannig að niðurstaðan þóknist sem flestum.

Ég þakka öllum nefndarmönnum í velferðarnefnd, ekki síst hv. þm. Páli Vali Björnssyni sem hér talaði enda leggur hann svo sannarlega sitt af mörkum til þess samstarfsanda.

Eins og fram kom í hans máli sem og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hafa verið í forsetaframboði gamlir stjórnmálakarlar sem hafa áhyggjur af ástandinu á Alþingi. Það eru kannski skósveinar þeirra, forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, sem eru hvað stærsti vandinn, hagsmunagæslumenn fram í fingurgóma, á meðan flestir aðrir þingmenn hafa valist hér inn af því að fólk treystir þeim til þess einmitt að vinna vel að mikilvægum og brýnum samfélagsmálum.