145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[14:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að kveðja mér hljóðs um þetta frumvarp til laga um almennar íbúðir sem velferðarnefnd hefur nú komið frá sér. Það verður að segjast eins og er, þrátt fyrir orð hv. þingmanns hér rétt áðan, að það var vissulega uppi ágreiningur og ekki hefur neinn dregið dul á það í sjálfu sér, en hann var leystur, eigum við ekki að orða það þannig. Það er kannski það sem er jákvætt í þessu, að ágreining er hægt að leysa ef vilji er fyrir hendi til þess. Við skulum vona að það haldi alla leið og lýsi sér í atkvæðagreiðslunni að okkur hafi tekist að vinna þetta með þeim hætti. Ég hugsa að það hafi komið sér vel að hafa reynslubolta í nefndinni, mér heyrist að svo hafi verið og reynslan hafi skipt máli í því tilfelli, hvernig ætti að bera sig að og horfa í ýmsa hluti sem við hinir yngri og nýrri þingmenn áttum okkur ekki endilega alltaf á.

Þrátt fyrir að maður sé ánægður með að frumvarpið sé komið fram og voni að það nái fram að ganga, er það vissulega svo að það fer ekki að kveða að því fyrr en eftir um tvö ár, fólk fer ekki að njóta afraksturs þess fyrr en eftir tiltekinn tíma. En þetta er áfangi á leið sem ég held að við getum verið sammála um að sé ágætur. Það hefur margt mikilvægt áunnist í meðferð málsins, t.d. að auka framlög ríkisins og sveitarfélaganna eins og hér hefur verið rakið, það er almennt 18% af stofnvirði íbúðanna frá ríkinu og 12% frá sveitarfélögunum. Það er mikilvægt fyrir sveitarfélög sem eru misvel stödd að þurfa ekki endilega að reiða það fram í beinu fjármagni heldur geti það falist í úthlutun lóðar eða lækkunar á gjöldum. Ég held að sá sveigjanleiki sé afar mikilvægur fyrir sveitarfélögin því að eins og við höfum séð í ríkisfjármálaáætlun þá eru þau mörg hver því miður ekki eins vel stödd og ríkissjóður, sérstaklega ekki á köldum svæðum, og eiga þess þá kost að fá viðbótarframlag eins og kom fram áðan.

Ég ætla að stikla hér á stóru enda er ég kannski meira áheyrandi að þessu máli, hef reynt að fylgjast með og setja mig inn í það, og hef ekki verið í þessari vinnu en hef notið þess að okkar þingmaður í velferðarnefnd hefur reynt að upplýsa okkur í þingflokknum mjög reglulega um þetta.

Sú breyting sem nefndin gerir á frumvarpinu sem snertir það að leigan verði ekki meira en 20–25% af tekjum er auðvitað afskaplega mikilvæg til að halda inni þessum viðkvæma hópi eins og við tölum gjarnan um það fólk sem höllum fæti stendur og á erfiðara en margur að komast í viðunandi húsnæði. Það skiptir gríðarlega miklu máli að ekki fari meira en fjórðungur af tekjum í leiguna því að það er auðvitað margt annað sem þarf að nýta fjármunina í, hvort sem það er rafmagn og hiti eða það að fá sér að borða.

Það er líka afar mikilvægur áfangi sem mér fannst nást í meðförum málsins að geta dreift byggingarkostnaðinum þannig að leigan dreifist jafnt yfir og hver eining standi ekki út af fyrir sig, en það þýddi aukinn kostnað fyrir suma og aðra ekki. Það komu að ég held ábendingar frá Brynju og fleiri aðilum um að ekki væri skynsamlegt að hafa það með þeim hætti. Ég er ánægð með að það náði fram að ganga. Það kemur fram í nefndarálitinu um 19. gr., um ákvörðun leigufjárhæðar, að þetta væri m.a. gert til að gera leiguna fyrirsjáanlegri þannig að leigjendur gætu treyst því að hún hækkaði ekki vegna þess að það væri verið að byggja annað og dýrara húsnæði. Svo þarf líka að taka með í reikninginn þá aðgreiningu sem við vinstri græn höfum a.m.k. talað mikið gegn, að ekki sé verið að safna saman fólki sem býr við bágari kjör á einhvern tiltekinn stað heldur geti það valið sér búsetu í rauninni hvar sem er í sveitarfélögunum. Það er afskaplega mikilvægt í öllu samhengi.

Annað sem við höfum rætt mikið í þessu sambandi er byggingarreglugerð og það að draga úr kröfum gagnvart henni. Ég er afskaplega fegin að sjá að í 18. gr. er farið vel yfir það að ekki eigi að slá af kröfum tímans um sómasamlegt húsnæði og framtíðarþarfir, þ.e. að þær kröfur eru gerðar til íbúðanna að fólk geti elst í þeim og búið þar áfram þrátt fyrir aldur eða annarra hluta vegna, jafnvel þótt það þurfi aukna aðstoð eða eitthvað slíkt með árunum sem kallar á rýmri eignir en áður var gert ráð fyrir. Það er afskaplega mikilvægt. Íbúðir stúdenta og aðrar slíkar lúta svo öðrum lögmálum eins og farið hefur verið yfir, og hægt að gera minni kröfur til þeirra að ýmsu leyti, því þær eru yfirleitt ekki ætlaðar til framtíðarbúsetu heldur aðeins meðan á námi stendur.

Það kemur líka fram að þessar íbúðir séu kannski ekki sérlega íburðarmiklar og ætla megi að þeir sem öðlast meiri tekjur eða eignast eitthvað komi til með að sækja í veglegra húsnæði. Það skiptir líka máli að huga að því þannig að hér er gert ráð fyrir að reikna megi álag á leigu ef tekjur eða eignir leigjenda eru umfram viðmið, sem tekið er fram í 12. gr., í samfellt þrjú ár, sem á að koma í veg fyrir að jaðaráhrif af þessari hækkun verði of mikil. Það er því verið að reyna að ná utan um þetta.

Aðeins um framkvæmdasjóðinn, en gert er ráð fyrir að íbúðafélögin verði með svokallaðan framkvæmdasjóð. Auðvitað hlýtur að þurfa þannig sjóð, eðli málsins samkvæmt, það þarf að halda öllu við. Hér er vísað til Dana, að þeir séu með svipað íbúðaform og það hafi komið í ljós að nauðsynlegt væri að skylda íbúana til að halda sérstakan sjóð til þess að hægt væri að standa undir viðhaldi og endurbótum. Nefndin leggur til þá breytingu að hann heiti viðhaldssjóður en ekki framkvæmdasjóður. Það skiptir kannski ekki höfuðmáli í sjálfu sér, en aðalmálið er gert sé ráð fyrir þessu þannig að fólk viti að hluti af leigunni fer í sjóðinn.

Hér hefur líka verið rætt um Húsnæðismálasjóð sem ég held að sé góð leið til að byggja upp, því að við vitum að þetta skref er aðeins dropi í hafið og felur í sér bara örfáar íbúðir á næstu árum. Það er langur gangur fram undan til að uppfylla kröfur sem við stöndum frammi fyrir í dag og í sjálfu sér er ekki búið að leysa þann vanda sem við okkur blasir. Eins og ég sagði áðan þá koma áhrif þessa frumvarps ekki til góða fyrr en eftir töluverðan tíma. Þess vegna þurfum við líka að huga að því hvernig við ætlum að taka á málum í dag. En varðandi Húsnæðismálasjóð, þá fara stofnframlög, þegar þau verða endurgreidd, í þann sjóð sem á svo að verða sjálfbær til þess að hægt verði að halda áfram verkefninu og byggja meira. Þar er tíminn lengdur, mig minnir að hann hafi verið lengdur úr 30 árum í 50, þ.e. að endurgreiðslutíminn hefjist eftir 50 ár sem getur skipt verulega miklu máli, líka vegna greiðslugetu hverju sinni.

Ég ætla að stinga mér aftur í stofnframlögin, viðbótarstofnframlögin, þar sem nefnt er að það gæti verið erfitt og jafnvel ómögulegt að fjármagna leiguíbúðir á litlum svæðum. Í hinum dreifðu byggðum þar sem maður fer um kjördæmið þar sem er lítil fólksfjölgun og framkvæmdakostnaðurinn við byggingar er miklu hærri en endursöluverð, þá sér maður að það leggur eiginlega enginn í að fara að byggja, það er bara svoleiðis. Það þarf að koma til einhvers konar opinber stuðningur, það er skortur á húsnæði jafnvel, þannig að sveitarfélögin haldi áfram að þrífast eins og maður segir og hinar dreifðu byggðir landsins. Þess vegna er mikilvægt að lagt er til að gefin verði heimild fyrir viðbótarfjármagni, þó að það eigi að vera í algjörum undantekningartilfellum. Ég veit ekki hvort það er algerlega skýrt í álitinu hvað þarf að liggja að baki til að hægt verði að fá viðbótarframlag. Er það markaðsverðið eingöngu? Þetta er væntanlega samsafn af einhverjum þáttum, kannski að ekki hafi verið byggt í X mörg ár, eitthvað hlýtur að liggja að baki sem ég hef ekki kannski komið auga á sem verður til þess að sveitarfélög geta óskað eftir viðbótarframlagi. Það er mjög mikilvægt að framlagið er óafturkræft því að það gefur miklu meiri hvata til þess að sveitarfélög leiti eftir því að byggja húsnæði. Menn verða líka að átta sig á því að ekki er verið að fara að byggja blokkir úti um allar koppagrundir. Það eru heldur ekki byggingarfélög eða leigufélög nema á örfáum stöðum á landinu. Á stærstu stöðunum eru til leigufélög eða eitthvað í þeirri líkingu. Annars staðar eru það sveitarfélögin eða einstaka byggingarverktakar sem hafa verið áræðnir og byggt, en það er oftast þar sem einhver uppgangur hefur verið. Það hefur nú ekki alltaf farið vel eins og við sáum m.a. fyrir austan, á Egilsstöðum, þar sem blokkir hafa lengi staðið tómar en vonandi er að verða bragarbót á því. Sá viðbótarstuðningur sem ríkið getur veitt er því kostur og hann er líka mikilvægur í því samhengi að ef sveitarfélagið er ekki í stakk búið til þess að veita þá viðbót þá getur ríkið samt sem áður veitt hana, þ.e. annar aðilinn getur veitt viðbótarframlag án þess að hinn geri það. Ég held að það sé líka afskaplega mikilvægt.

Þetta er það sem mér finnst vera stóru punktarnir í frumvarpinu, þeir hlutir sem ég hef farið yfir, þetta er það sem ég horfi til þegar ég lít til hinna víðu og dreifðu byggða og hvort þar geti verið möguleiki á að byggja húsnæði. Svo er það auðvitað spurning um félagslegu íbúðirnar þar sem við vitum að félagsíbúðir eða félagslegar íbúðir eru mjög íþyngjandi hluti fyrir mjög mörg sveitarfélög, sem eru með þær í reikningnum sínum. Það væri vert að velta því fyrir sér hvort sveitarfélögin gætu stofnað um þær sérstakt félag, eitthvert utanumhald, sem væri séreining og kæmi ekki inn í skuldahlutfall sveitarfélaganna. Nú veit ég ekki hvort það er framkvæmanlegt, en það væri vel þess virði að athuga það því að það mundi breyta heilmiklu í sjálfu sér, þó að bakábyrgðin væri til staðar, varðandi lánshæfi og annað slíkt fyrir þau.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég vænti þess að málið nái fram að ganga með þeim ágætu breytingum sem hér hafa verið raktar ágætlega í dag og þetta verði, eins og hér hefur verið sagt, sameiginleg niðurstaða um fyrsta skref í langri göngu, því að þetta er bara eitt af mörgum skrefum sem þarf að taka. Það er langt liðið á kjörtímabilið og því miður ljóst að við sjáum ekki afraksturinn fyrr en eftir kannski tvö ár eða svo. En þetta er áfangi.