145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

lyfjalög.

677. mál
[15:23]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en fagna því að þetta frumvarp og þessi þingsályktunartillaga eru komin fram. Það er löngu tímabært að endurskoða lyfjalög hér á landi og einnig er gott að setja lyfjastefnu til ársins 2020. Þetta er stórmál og það skiptir ekki bara máli hvernig lyfjalögin eru heldur skiptir líka mjög miklu máli hvernig þau eru túlkuð. Mín skoðun er sú, sem ég hef haldið fram hér áður þó að það séu nú einhver ár síðan ég talaði síðast um það, að lyfjalög hér á landi hafi verið mjög þröngt túlkuð sem ég held að hafi ekki verið til góðs fyrir almenning í landinu heldur fyrst og fremst umboðsmenn eða þá sem selja lyf.

Það skiptir mjög miklu máli að fara gaumgæfilega í gegnum þessi lög og það er ekki nóg að lögin séu samin af hagsmunaaðilum eða einhverjum nefndum sem skipaðar eru, heldur skiptir gífurlegu máli að fara rækilega yfir það í velferðarnefnd, að þar verði reynt að fá fólk sem þekkir til þessara mál en er kannski ekki í innsta hring sérhagsmunaaðila. Hér eru sérhagsmunir gífurlegir í því hvernig farið er með lyf og sölu á lyfjum og allt sem viðkemur lyfjum í landinu.

Ég tel þetta afar mikilvægt. Hæstv. ráðherra nefndi að hann hefði á síðustu dögum fengið tilmæli frá landlækni, t.d. um að ljósmæður gætu ávísað getnaðarvarnarpillu, og svo nefndi hann eitthvað fleira og vísaði því til nefndarinnar að hún tæki það fyrir. Það er gífurlegt hagsmunaatriði líka, virðulegi forseti, fyrir okkur öll að einmitt sé farið í gegnum það að hugsanlega megi víkka það út hverjir ávísa hvaða lyfjum í þessu landi vegna þess að það er líka einokun á því.

Þetta mál er á dagskrá í lok þingdags þegar allir eru farnir heim eins og það skipti ekki miklu máli. Ég skal bara viðurkenna, virðulegi forseti, að ég áttaði mig ekki sjálf á því fyrr en fyrir svo sem eins og þremur korterum að þetta mikla mál væri á dagskrá í dag, þetta gífurlega áríðandi mál. Ég vildi bara segja það hér og lofa ráðherranum að ég muni hafa nákvæmari og meiri skoðanir á því þegar ég tala um það næst úr þessum ræðustól.