145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

barnabætur.

[13:41]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Í viðtali við hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra nýverið komu fram áhyggjur hennar af lækkandi fæðingartíðni á Íslandi. Það er hárrétt. Við Íslendingar höfum notið þeirrar sérstöðu meðal Evrópuþjóða að fjölga okkur með náttúrulegum hætti. Norðurlöndin hafa staðið sig einkar vel á Evrópuvísu einmitt vegna þess öfluga velferðarkerfis sem við höfum í kringum barnafjölskyldur, fæðingarorlof, gjaldlága leikskóla og barnabætur.

Í fjármálaáætlun hæstv. fjármálaráðherra, sem er stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum til næstu fimm ára, kemur fram að skerða eigi barnabætur þannig að þeir tekjulægstu fái hærri barnabætur en það lítur allt út fyrir að barnabætur fólks með lægri meðaltekjur fari lækkandi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé líklegt til að auka vilja fólks til að vilja ala upp börn á Íslandi þegar dregið er úr stuðningi við barnafjölskyldur með þessum hætti. Og þá vil ég einnig spyrja hæstv. félagsmálaráðherra sem hefur lýst yfir vilja til að hækka fæðingarorlofsþakið í 500 þús. kr. og boðað frumvarp sem á að vera í forgangi núna vegna komandi kosninga í október, hvenær við megum eiga von á því frumvarpi og hvort ekki standi til að hækka þakið í fæðingarorlofi í 500 þús. kr. Það eru sem sagt þessar tvær spurningar sem ég beini til hæstv. ráðherra: Er heppilegt að lækka barnabætur hjá millitekjufólki þegar dregur úr (Forseti hringir.) fæðingartíðni? Og hyggst hún hækka fæðingarorlofið, þakið, í 500 þús. kr.?