145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

lækkandi fæðingartíðni á Íslandi.

[13:56]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er á sömu slóðum og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Ég vil ræða það að fæðingum er að fækka á Íslandi. Þetta er þróun sem hefur átt sér stað alveg frá 1960 en þó í mismiklum mæli. Núna á undanförnum árum hefur fækkunin verið gríðarlega hröð.

Þetta er mjög alvarleg staða sem við stöndum frammi fyrir því að aukinni öldrun þjóðarinnar fylgja margar áskoranir og efnahagslega skiptir það miklu máli að fæðingartíðni sé há. Þannig viðhöldum við til langs tíma mikilvægum hlutum eins og hagvexti og velferð. En til þess að ungt fólk, ungar fjölskyldur, eignist börn þarf það auðvitað að sjá fram á að það geti sinnt þeim og veitt þeim öryggi. Frumforsenda barnauppeldis er auðvitað ást og umhyggja en önnur mjög mikilvæg grunnforsenda sem þarf að fylgja eru ýmsar nauðsynjar sem kosta peninga, eins og matur og föt.

Þá komum við að málefnum ungs fólks. Við treystum á að ungt fólk eignist þessi börn, en staðan er sú á Íslandi í dag að lífskjör ungs fólks hafa dregist aftur úr kjörum annarra á síðustu árum á sama tíma og þjóðarbúið stendur vel. Samanborið við eldri kynslóðir hefur unga fólkið ekki notið sömu kaupmáttaraukningar og þeir eldri. Ofan á þetta leggst að greiðslur í fæðingarorlofi sem fólki býðst hér á landi eru núna skammarlega lágar. Kerfið allt er svo til ónýtt og fólk getur ekki nýtt sér það. Greiðslurnar eru allt of lágar, tekjuþakið er of lágt og orlofið er of stutt. Fyrir þá sem hafa minnst á milli handanna, eins og ungt fólk hefur það sem hópur, og það að taka fæðingarorlof skerðir lífsgæði þeirra og fjölskyldu þeirra enn meira, gefur augaleið að fólk sleppir því að eignast börn ef staðan er þannig að það getur einfaldlega ekki séð fyrir þeim.

Hvað finnst hæstv. félagsmálaráðherra um þessa stöðu? Af hverju er þessi þjóðfélagshópur, ungt fólk, henni og ríkisstjórninni (Forseti hringir.) ekki ofar í huga? Af hverju hefur fæðingarorlofið ekki verið hækkað þannig að fólk nýti sér það? Feður eru að hætta því. Ríkir ekki einhugur um þetta mál í ríkisstjórninni, því nú hefur verið boðað að þakið verði hækkað en það bólar ekkert á því?