145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

lækkandi fæðingartíðni á Íslandi.

[14:02]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum enn á ný fyrir. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að vera ósammála henni, það kom einmitt mjög skýrt fram í niðurstöðum nefndarinnar að það þurfti nefndina, þótt ekki væri nema fyrir það að fram kæmi skýrt sá ágreiningur sem ég fann mjög fyrir þegar ég sjálf tók ákvörðun um að fara fyrst í hækkun á þakinu og leggja áherslu á það. Það var ekki full samstaða um það og það var ágreiningur um hvernig ætti að nálgast hlutina.

Það liggja hins vegar fyrir tillögur. En það skal alveg viðurkennast hér að það var ekki fyllileg samstaða um þær tillögur þótt ég telji rétt að vinna samkvæmt þeim tillögum sem meiri hluti nefndarinnar komst að varðandi breytingar á fæðingarorlofinu.

Síðan vil ég líka ítreka það sem ég held að vísu að hv. þingmaður og aðrir hafa heyrt mig tala mjög mikið um, að ég tel að húsnæðismálin séu alveg gífurlega mikilvæg fyrir þennan hóp. Við erum einmitt að fara í atkvæðagreiðslu við 2. umr. um frumvarp um almennar íbúðir sem á eftir að skipta ungar fjölskyldur mjög miklu máli þegar við horfum til langs tíma. Það er einmitt mjög nauðsynlegt að við gerum það þegar kemur að öllu því sem snýr að húsnæðismálum.

Við töldum (Forseti hringir.) rétt að forgangsraða með þeim hætti að byggja upp atvinnulífið, tryggja að staða ríkissjóðs yrði jafn öflug (Forseti hringir.) og við vitum að hún er núna og síðan gætum við farið í það að endurbyggja velferðarkerfið. En það tekur á að byggja upp eftir hrun.