145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

opinbert útboð á veiðiheimildum.

[14:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt og vonandi verður það þannig að við munum sjá mjög hagstæðar tölur varðandi veiðistofnana í kringum landið og allt bendir til þess í rauninni. (Gripið fram í.)Ég heyri ekki hvað hv. þingmaður kallaði fram í. (ÖS: Þeir eflast stofnarnir um leið og þú kemur …) Þakka þér fyrir, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Mér þykir vænt um þessi góðu orð. En að alvöru málsins.

Nei, ég sé það ekki gerast að við tökum það sem verður mögulega bætt við, og við vitum ekki hvort það verður endilega bætt miklu við en ef það verður, og förum með það á uppboð. Ég hef ekki enn þá séð útfærslu eða rök fyrir því hvernig menn ætla t.d. að koma í veg fyrir að verð á aflaheimildum hækki við útboð, að t.d. þeir sem mesta eiga fjármunina geti safnað þessum aflaheimildum til sín á uppboði. Ég hefði áhyggjur af því að stærstu fyrirtækin gætu boðið hæsta verðið og þar af leiðandi haldið þeim minni sem hafa minna fé milli handanna frá því að fá aflaheimildir. Ég held því að við hljótum að úthluta á hefðbundinn hátt.