145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[14:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er ein af lykilgreinum frumvarpsins er skilgreinir stofnframlög og tekju- og eignamörk. Í breytingartillögum velferðarnefndar er lögð til dálítið önnur nálgun varðandi þá aðila sem geta starfað innan kerfisins. Það eru að sjálfsögðu í fyrsta lagi húsnæðissjálfseignarstofnanir, sem við leggjum til að kallist svo í staðinn fyrir almenn íbúðafélög, en það eru sömuleiðis sveitarfélög og lögaðilar sem eru alfarið í eigu sveitarfélaga og jafnvel í þriðja lagi lögaðilar sem eru starfandi við gildistöku laga þessara og uppfylltu áður skilyrði fyrir að fá lán frá Íbúðalánasjóði samkvæmt 37. gr. laga um húsnæðismál. Með öðrum orðum auka breytingartillögur velferðarnefndar svigrúm sveitarfélaga til þess að velja sér það félagsform fyrir úrlausn sinna húsnæðismála sem þau svo kjósa og telja sér hagstæðast. Ég tel þetta mjög mikilvæga breytingu auk þess sem hún tryggir jafnræði milli þeirra sveitarfélaga sem í dag eiga þegar húsnæðisfélög í hlutafélagsformi og fá að starfrækja þau áfram og hinna sem ella hefðu ekki átt þess kost nema opna sig fyrir það með þeim hætti sem hér er gert. Þess vegna mæli ég sérstaklega með þessari breytingu.