145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[14:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér koma tvær mjög mikilvægar breytingartillögur við 13. gr. sem ástæða er til að vekja athygli á. Annars vegar að heimilt er að hækka stofnframlag ríkisins um allt að 4 prósentustig þegar í hlut á íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélaga sem þau eru að byggja eða afla sér fyrir sinn skjólstæðingahóp og vegna íbúðarhúsnæðis sem ætlað er námsmönnum eða öryrkjum. Þessi 4 prósentustiga viðbót er óafturkræf, er styrkur.

Sömuleiðis verður heimilt að veita allt að 6 prósentustiga viðbótarframlag frá ríkinu vegna íbúða á svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði eru á því að fá fjármögnun. Hér er verið að hugsa um þau svæði á landsbyggðinni sem erfiðast eiga uppdráttar í þessum efnum. Með þessu er jafnræði aukið og líkurnar á því að markmiðið um 20–25% af tekjum í leigu nái fram að ganga. Einkum á það við um fyrra ákvæðið þar sem ljóst er að 4 prósentustiga viðbótarframlag (Forseti hringir.) til byggingar fyrir tekjulægstu hópa sveitarfélaganna, námsmenn og öryrkja, er verulegur stuðningur í þessum efnum.