145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[14:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla nú ekkert að biðjast afsökunar á því að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa mikilvæga máls í nokkrum atkvæðaskýringum. Hér eru mikilvægastar að mínu mati breytingartillögurnar við 19. gr., þar sem er í raun og veru gjörbreytt grundvelli ákvarðana á leigu. Í stað þess að leiga skuli gerð upp þannig að hún standi undir hverjum einstökum byggingaráfanga fyrir sig hjá húsnæðissjálfseignarstofnun eða öðrum aðila þá fá þeir sem eiga og reka húsnæði stóraukið sjálfræði til þess að ákveða leiguna, þó þannig að sjálfsögðu innan þeirra marka að rekstur félaganna sé sjálfbær og þau geti staðið við allar sínar skuldbindingar. Þetta er mikilvæg breyting vegna þess að hún auðveldar starfandi aðilum að bæta inn í sitt íbúðasafn húsnæði eftir þessu kerfi. Hún leggur grunn að því að menn geti frekar náð fram markmiðum um félagslega blöndun og hún gerir aðilum eins og Félagsbústöðum, Félagsstofnun stúdenta, Brynju – hússjóði Öryrkjabandalagsins og öðrum slíkum kleift að ákvarða (Forseti hringir.) leiguna í samræmi við sína félagspólitík.