145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[14:33]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi fá að koma hér sérstaklega upp varðandi Húsnæðismálasjóðinn vegna þess að sá hluti er sérstaklega mikilvægur fyrir uppbyggingu þessa nýja kerfis. Markmið okkar með honum er að kerfið verði sjálfbært til lengri tíma litið þannig að það geti í raun haldið áfram að framleiða íbúðir fyrir þau heimili sem þurfa á því að halda á grundvelli þeirra framlaga sem koma nú í upphafi frá ríki og sveitarfélögum.

Ég vil líka fá að taka það sérstaklega fram að þetta er hugmynd sem tók smátíma fyrir mann að melta þegar hún kom fyrst fram frá Alþýðusambandi Íslands; þar var verið að horfa til fyrirmynda í Danmörku þar sem kerfið hefur einmitt virkað áratugum saman og gefið góða raun þegar kemur að því að það viðhaldi sér og haldi áfram að styðja við þær fjölskyldur sem þurfa á því að halda.

Þetta frumvarp endurspeglar mikla samvinnu með verkalýðshreyfingunni, með aðilum vinnumarkaðarins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég vona svo sannarlega að það muni lifa okkur.