145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2016.

640. mál
[14:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég hafði fyrirvara við stuðning minn við þetta mál en tókst ekki að gera grein fyrir honum við umræðu málsins. Í þeim samningi sem við erum hér að ganga frá er fallist á fyrir Íslands hönd að kvóti Færeyinga í þorski verði aukinn um helming.

Nú vil ég Færeyingum ekkert nema gott. Hins vegar er það svo að við höfum átt í erfiðri deilu við þá um makríl og ríkisstjórnin fór mjög hörðum orðum um það úr þessum stóli. Við erum sömuleiðis í uppnámi gagnvart þeim með mál sem tengjast kolmunna og síld.

Við þær aðstæður finnst mér það vera undarleg samningatækni að verðlauna Færeyinga með því að stórauka kvóta þeirra í þorski. Ég gekk eftir því við umræður málsins í utanríkismálanefnd hvað lægi þar á bak við. Það komu engar skýringar.

Það breytir því ekki að ég ætla að styðja þetta mál. En mér finnst sem samningatækni íslensku ríkisstjórnarinnar í þessu máli sé ekki til fyrirmyndar.