145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi inna hæstv. ráðherra eftir því hvort honum þætti ekki slæmt að ekki skuli með afdráttarlausum hætti undið ofan af kvótakerfinu. Skekkjan í samkeppnisstöðu landbúnaðar á Íslandi felst einkum í tvennu, kostnaði við kvótakaup og kostnaði við vexti. Ef hann á að verða sjálfbær og þurfa minni niðurgreiðslur þá verður þetta að taka enda.

Virðulegur forseti. Ég hlýt líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji eðlilegt að ríkisstjórn sem nýtur liðlega þriðjungsstuðnings meðal þjóðarinnar skuli á síðustu dögum kjörtímabils síns ljúka samningum lengra fram í tímann en nokkru sinni fyrr, þ.e. til tíu ára, um jafn gríðarlegar fjárhæðir og mikilvægar stefnumarkandi ákvarðanir og hér um ræðir.