145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra flutti hér þau rök, sem heyrst hafa frá mörgum aðstandendum málsins, að nauðsynlegt sé að fara í þessa kerfisbreytingu til að losna við það verðgildi sem framleiðsluréttur innan samningsins hafi tekið á sig og torveldi nýliðun og fari í vaxtagreiðslur til banka o.s.frv.

Það er að sjálfsögðu rétt að það er vandamál. Sérstaklega hefur það verið það í tilviki mjólkurkvótans. Miklu veigaminni röksemd gagnvart sauðfjárhlutanum. En það eru engin rök sem halda vatni að til þess að takast á við það vandamál þurfi að henda beingreiðslum, þurfi að henda greiðslumarki og þurfi að hætta að miða stuðning ríkisins við þarfir innanlandsmarkaðar og taka í reynd upp óbeinar útflutningsuppbætur á nýjan leik, sem hér stendur til að gera.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Var aldrei boðið upp á það af hálfu ríkisins að skoða aðrar leiðir til þess að taka á þessu vandamáli? Að sjálfsögðu er það ekkert náttúrulögmál að framleiðsluréttur innan svona samnings þurfi að ganga kaupum og sölum á markaði. Það er ósköp einfaldlega hægt að hafa annað fyrirkomulag þar á.