145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:08]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er einn af þeim sem eiga erfitt með að skilja af hverju peningar úr opinberum sjóðum fara í þessi verkefni á hverju ári; í svona afmarkaða þætti matvælaframleiðslu, lambakjöt og mjólk aðallega. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver von sé til þess að að því komi að við þurfum ekki lengur að styðja landbúnað svona mikið á Íslandi.

Mér finnst að við séum að fara úr heimsmynd þar sem hætta var á offramleiðslu, og þess vegna þurfti að takmarka framleiðsluna, í þá mynd að um verði að ræða umframeftirspurn; og við erum með mjög góðar vörur. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála þeim skilningi mínum á þessum búvörusamningum að verið sé að horfa mun meira til útflutnings; að íslenskir bændur séu farnir að horfa á útflutning, vegna eftirspurnar eftir skyri og lambakjöti og öðru, og þess vegna eigi að leggja af framleiðslutakmarkanir.

Erum við þá ekki að sjá það, vonandi (Forseti hringir.) í náinni framtíð, að þegar bændur festa í sessi meiri útflutning þá verði óþarfi að verja svona miklum fjármunum úr ríkissjóði til þess að styrkja framleiðsluna?