145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við getum alveg haft þá framtíðarsýn að landbúnaðurinn gæti verið í sömu stöðu og íslenskur sjávarútvegur; líklega einn af þremur slíkum atvinnuvegum í heiminum sem ekki er ríkisstyrktur með nokkrum hætti.

Auðvitað væri það óskastaðan að við værum með landbúnað sem væri líka án styrkja. Ætli það væri þá ekki bara fyrsti landbúnaðurinn í heiminum sem ekki mundi hljóta neina styrki eða tollvernd eða eitthvað slíkt? Það er nú þannig að flest, ef ekki öll, ríki heims eru með einhverjar varnir fyrir sinn landbúnað, hvort sem það er þá í formi styrkja eða tolla eða hvors tveggja.

Ég nefndi í inngangsræðu minni að af nágrannalöndum okkar eru Noregur og Sviss með töluvert hærri styrki en við og þá saman reiknað með tollvernd. Það er einfaldlega vegna þess að þessar þjóðir hugsa eins og Íslendingar. Við viljum hafa ákveðna vernd fyrir framleiðsluna. Við verðum að hafa ákveðið fæðuöryggi. Það er erfitt að stunda landbúnað á þessum slóðum, í þessum þremur ríkjum sem ég nefndi hér.

Ég get alveg tekið undir það með þingmanni að vonandi lendum við einhvern tímann á þeim stað (Forseti hringir.) að við getum verið með þannig landbúnað að hann þurfi hreinlega ekki að njóta styrkja. En um leið verðum við áfram að tryggja að í sveitum landsins um allt land geti búið fólk sem geti framleitt vörur.