145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er mikilvægt að samningarnir séu þetta langir til þess að bændur, fyrir þá sem samningurinn nær til, fái framtíðarsýn. Ég hefði svo sem viljað óska að við hefðum getað gert það í fleiri svona mikilvægum atvinnugreinum.

Í samningunum kemur fram að það er tvennt sem á að gera. Það á að reyna að finna þau svæði sem helst þurfa á sérstökum býlis- eða byggðastuðningi að halda. Svo er líka ákveðið að skipa starfshóp til þess að fara ofan í þær byggðaaðgerðir, kanna til hvaða aðgerða þurfi að grípa. Það er verið að skipa í þann starfshóp þessa dagana og óska eftir tilnefningum.

Varðandi það til hvaða svæða verður horft þá hefur Byggðastofnun fengið það hlutverk að rannsaka það og um leið útfæra og koma með tillögur er varða það. Það liggur ekki fyrir á þessari stundu. Ég get í raun ekki heldur sagt hversu langt stofnunin er komin í þeirri vinnu. (Forseti hringir.) En stofnunin hefur fengið þetta hlutverk og mun örugglega skila niðurstöðum fyrr en seinna.