145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:17]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði hérna einnar spurningar sem ég verð að viðurkenna að ég þarf svolítið að klóra mér í kollinum yfir: Hvernig skilgreinir þú nýliða? Er það ungur bóndi sem er að fara af stað eða erum við að tala um eldri bændur sem kannski skipta um búgrein eða gera eitthvað annað? Ég get ekki svarað því hér. Ég er ekki kominn nógu langt í fræðunum til þess, held ég.

Hins vegar varðandi nýliðunarstyrkina er það eitt af því sem á eftir að gera, að skilgreina nákvæmlega útfærsluna og einmitt hvernig eigi að útfæra styrkina. Það er hins vegar mjög mikilvægt eins og hv. þingmaður kemur inn á að skilgreiningin liggi fyrir sem fyrst, að sjálfsögðu, þannig að þeir sem eru í búrekstri eða hafa hug á því átti sig á því hver staða þeirra er. Ég vil því þakka þessa umræðu og ábendingar. En eins og hv. þingmaður heyrir og þingmenn almennt vita eru ákveðnir hlutir í þessum samningum (Forseti hringir.) sem kalla á yfirlegu og útfærslu, rannsóknir, og síðan eru þeir útfærðir og kláraðir.