145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvar hans sem er í raun svar við þeirri spurningu sem ég bar fram um atkvæðagreiðsluna og innlausnarákvæðið, en nánar er fjallað um það í 26. gr. Það er kannski það sem ég var svolítið að lýsa áhyggjum yfir hjá bændum hvað þá grein varðar, þ.e. einhliða atkvæðagreiðslu bænda um hvort afleggja eigi greiðslumark mjólkur eða ekki, sem fer þá fram fyrir 1. janúar 2017 — nei, 31. desember 2019 vildi ég frekar sagt hafa.

Þetta er einhliða atkvæðagreiðsla og ef hún fer eins og ég ímynda mér miðað við þá fundi sem ég hef setið, að bændur muni áfram leggjast gegn afnámi greiðslumarks, hvað gerist þá hjá ríkinu? Hæstv. ráðherra segir: Jú, það er einhver komandi ríkisstjórn sem fær það.

Ég get nefnilega ekki séð neitt slíkt ákvæði af ríkisins hálfu ef ríkið vill afnema þetta eins og lagt var upp með í byrjun af samninganefnd ríkisins sem reyndi að vinna þetta á þann hátt að afnema greiðslumark mjólkur. En mjög margir bændur víðs vegar um landið risu upp gegn því og því var þetta sett svona fram.

Í 2. mgr. 26. gr. er að finna nýmæli sem varðar þessa innlausnarskyldu ríkisins sem er þannig að handhafi greiðslumarks getur með vísan til greinarinnar óskað eftir innlausn á greiðslumarki sínu frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2019. Þá er það ríkið sem leysir það til sín og býður það til sölu á ákveðinn hátt sem fjallað er frekar um.

En það sem ég vildi segja, virðulegi forseti, í lokin og gagnrýna alveg sérstaklega er það ákvæði sem sett er upp varðandi tollkvótana og að hækka verðið um 60% í raun og veru sem fjallað er hér um og komið hefur m.a. fram hjá ísframleiðendum (Forseti hringir.) sem mér er mjög umhugað um, og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og fleirum sem hafa sagt að ef þetta gengur eftir geti ísframleiðsla farið úr landinu. Það vil ég ekki sjá fyrir neina muni, virðulegi forseti.