145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:09]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hef eitt og annað við þetta frumvarp að athuga. Ég ætla að renna aðeins í gegnum það. Ég vil taka það fram að ég tel að sumar breytingarnar sem verið er að fara í geti orðið til bóta. Mér finnst þessi spurning um að afnema kvótakerfið áhugaverð og mér finnst ekki liggja fyrir eins og sumir óttast að kerfið muni í rauninni verða framleiðsluhvetjandi ef við förum úr kvótakerfinu og við gætum lent í offramleiðslu. Ég ætla að leyfa mér að hafa þá trú á markaðnum að það muni ekki gerast. Ég skil samt þær áhyggjur og þetta hlýtur að verða eitt af því sem verður kannski hvað mest skoðað í atvinnuveganefnd, því að þetta er veruleg breyting. Ég tel að hún sé til bóta, ég ætla að leyfa mér að trúa því, en ég skil áhyggjur manna vegna þess að við höfum setið uppi með offramleiðslu, jafnvel urðað mat. Til eru frægar myndir af tómatafjöllum og öðru slíku þó að fréttirnar hafi kannski verið að einhverju leyti svolítið ýktar, en þá vorum við í sumum tilfellum hreinlega að senda mat úr landi með útflutningsstyrkjum til að losa okkur við umframbirgðir. Það er auðvitað ekki gott.

Ég sé ekki í frumvarpinu, ég er nú ekki búin að lúslesa það, að tekið sé neitt á því ef bændur eða einhver verður uppvís að dýraníði eða að því að fara illa með skepnur, og viðkomandi þiggur greiðslur frá ríkinu, að heimild sé til þess að halda eftir beingreiðslum eða fella þær niður. Þetta er mál sem hefur verið rætt hér og var held ég örugglega inni í frumvarpinu um dýravelferð, hvort það voru Bændasamtökin sem gerðu athugasemdir við það og töldu að slík heimild ætti frekar heima í búvörulögunum. Ég bjóst hálfpartinn við því að þetta kæmi inn í búvörulögin. Ég sé það ekki, en það er ekki loku fyrir það skotið að þetta sé þarna einhvers staðar. Í skýringu við 35. gr. segir að það sé heimild til að fella niður beingreiðslur ef framleiðandi verður ekki við kröfu samkvæmt 1. mgr. 60. gr. um að veita upplýsingar um afurð, verð og viðskiptakjör. Mér finnst mjög mikilvægt að nefndin taki þetta til athugunar, því að mér finnst eðlilegt að það sé heimild til að grípa til aðgerða ef sá sem þiggur beingreiðslur frá ríkinu stendur sig ekki í stykkinu og fer illa með dýr, eins og því miður eru dæmi um, þó að þau séu vonandi örfá. Þannig að það er eitt.

Ég sé heldur ekki neinar hugmyndir um að breyta því hvernig við úthlutum tollkvótum sem var reyndar samþykkt fyrir bara ári síðan. Við í Bjartri framtíð höfum verið ósátt við það að útboðsleiðin hafi orðið ofan á. Við hefðum frekar viljað annaðhvort hlutkestisleiðina, einhvers konar sambland, eða jafnvel úthlutun sem byggir á fyrri úthlutunum að einhverju marki, það er hægt að fara blandaðar leiðir. Þetta sé ég ekki. Og eins virðist ekki eiga að afnema undanþágu Mjólkursamsölunnar frá samkeppnislögum. Það finnst mér áhyggjuefni þó að það virðist eiga að gera einhverjar breytingar.

Það mætti jafnvel segja að það væri eðlilegt að vera með einhvers konar einokunar-, jöfnunar- og dreifikerfi vegna þess að vissulega er misdýrt að sækja t.d. mjólk og það mætti hugsa sér einhvers konar, hvað eigum við að segja, einokunarfyrirtæki sem sæi um það, en ekki að það sé verið að veita einum aðila sem í þessu tilfelli er Mjólkursamsalan þetta mikið vald, sem við höfum séð hvernig hefur verið misnotað í gegnum tíðina, því miður. Ég held að það sé mikilvægt að fleiri framleiðendur séu á markaði og það sé fjölbreytni. Það má vel vera að verðið yrði aðeins hærra, en ég held að það sé þess virði fyrir neytendur að þurfa að borga aðeins hærra verð ef það þýðir að við séum ekki með einokunaraðila á markaði sem geti í rauninni komið í veg fyrir að nýir framleiðendur komist með afurðir sínar á markað, komið þeim almennilega á markað, því að það hefur verið vandamál.

Varðandi samningana og hvernig þeir komu til þá hefur verið gagnrýnt að ekki hafi verið haft mikið samráð. Það er tekið fram að á meðan á ferlinu stóð hafi ráðherra kynnt samningana fyrir ýmsum hagsmunaaðilum. Ég hefði gjarnan viljað sjá mun meiri aðkomu neytenda að samningunum allt frá upphafi og skattgreiðenda, getum við sagt, en það er væntanlega fjármálaráðuneytið sem á að standa þá vakt, og jafnvel aðkomu fleiri aðila vegna þess að þetta kemur inn á svo ótrúlega margt. Tökum sem dæmi beit. Beitarland er oft í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Hafa þeir aðilar ekki eitthvað um málin að segja? Ég vona að þegar næst verður farið í svona vinnu verðum við búin að læra það að eftir því sem fleiri koma að málum, því betri verður niðurstaðan. Ég ætla alla vega að leyfa mér að trúa því.

Mér finnst líka að umhverfissjónarmið mættu vera sterkari. Vissulega á að auka framlög til lífrænnar ræktunar, en það er mjög lítið, í rauninni afar lítið. Í öðrum löndum horfa menn fram á virkilega aukningu eins og í Danmörku og fleiri löndum og eru framsæknir hvað þetta varðar. Ég geri mér grein fyrir því að einhverju leyti getur lífræn framleiðsla á Íslandi verið erfiðari og dýrari, sérstaklega hvað varðar notkun á áburði sem er það sem kannski helst setur okkur skorður. Við vorum að skoða málin í hópi undir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra þar sem við vorum einmitt að ræða það hvort við gerðum strangari kröfur hér en almennt gerðist í Evrópusambandinu hvað varðar vottaðar lífrænar vörur. Ég þori ekki að fullyrða það, en það er þess virði að skoða það. Mér finnst að við gætum verið metnaðarfyllri hvað þetta varðar, í raun mun metnaðarfyllri.

Þá kem ég inn á það sem mér finnst vera megingalli þessa frumvarps. Mér finnst það mjög íhaldssamt að því leyti að við horfum fyrst og fremst á mjög fáa þætti. Það er sauðfjárrækt, mjólkurframleiðsla, nautgriparækt kannski að einhverju leyti og ylrækt. Jú, geitin er komin inn og eitthvað erum við að tala um lífræna ræktun og jarðrækt, en ég hefði viljað sjá miklu stærra stökk í þá átt að bændur framleiði það sem þeir vilja framleiða og fá greitt fyrir það. Ég velti t.d. fyrir mér kartöflurækt sem á í töluverðum vanda. Ef við erum búin að ákveða það að við teljum eðlilegt að styrkja landbúnað, af hverju styrkjum við ekki kartöflurækt í meira mæli? Af hverju á að vera meiri stuðningur ef ég fæ mér mjólkurglas en ef ég sýð mér kartöflur? Við gerum einhvern veginn upp á milli matvæla. Eins byggrækt sem hefur gengið ágætlega og fleira í þeim dúr. Það hefði mátt ganga miklu lengra hvað þetta varðar.

Mig langar að koma inn á það að ég hef það á tilfinningunni að stefna okkar í landbúnaðarmálum eigi bara að vera byggðastefna, af því að byggðastefna okkar er einhvern veginn úti um allt og óljós og varla til. En þetta verður allt að haldast í hendur. Ef bændum fækkar þá er það væntanlega að einhverju leyti vegna þess að þjónustan í næstu þéttbýlisstöðum er orðin minni eða að samgöngurnar eru ekki góðar eða nettenging er ekki góð og þar fram eftir götunum. Við sjáum að bændur eru að eldast. Við fáum ekki þá nýliðun sem við vildum í þessar greinar, þannig að eitthvað er ekki í lagi. Ég hefði haldið að aukið frelsi til þess að framleiða það sem hugurinn girnist og það sem eftirspurn er eftir á markaði væri skref í rétta átt.

Það er fyrirhugað að hækka tolla, það líst mér nú ekki á, á einstaka vörur, það voru ostar ef ég man rétt. Það á að hækka magntollinn vegna þess að hann hefur ekki haldið í við verðlagsþróun. Ég verð að segja það og það er mitt álit að ég sé ekki eftir því að styðja íslenskan landbúnað og ég held að við munum alltaf þurfa að setja töluverða peninga til þess að styðja við matvælaframleiðslu á Íslandi. Ég veit ekki hvort hún getur nokkurn tímann orðið sjálfbær. Þá er mikilvægt að við fáum sem mest fyrir peninginn og nýtum hann vel, en á sama tíma finnst mér ófært að vera með jafn ríka tollvernd og við erum með á Íslandi. Ég skil það ekki, af hverju eru ostar ekki bara fluttir inn og neytendur mega kaupa þá osta sem þeir vilja borða? Það gengur alveg út í öfgar að vernda íslenska framleiðslu með þessum hætti. Þeir íslensku ostar sem eru svo góðir að neytendur velja þá verða áfram á markaði. Maður þreytist ekki á að benda á fyrirmyndina sem er þegar tollar á grænmeti eða tómötum og gúrkum voru lagðir niður, beingreiðslur komu í staðinn, og íslenskir neytendur sýndu að þeir kusu íslenska framleiðslu. En árið 2016 getur maður ekki sætt sig við það að ostar, gómsætir ostar sem framleiddir eru annars staðar og eru í mörgum tilfellum ekki einu sinni framleiddir á Íslandi, séu verðlagðir með þessum hætti og verið sé að leggja á þá háan toll. Svo ég segi eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem sagði áðan að hann mundi meðan blóðið rynni í æðum hans berjast gegn ákveðnum breytingum í frumvarpinu, ég ætla að taka undir þau orð nema ég ætla að beita mér fyrir því að tollar á ostum, þessir háu tollar, verði ekki settir á. Ég trúi því ekki að Sjálfstæðisflokkurinn sérstaklega muni sitja hér í atkvæðagreiðslu og greiða atkvæði gegn breytingartillögu sem við í Bjartri framtíð munum leggja fram ef svona fer, nema þeir verði þá allir á klósettinu eða einhvers staðar annars staðar.

Málið fer nú til nefndar. Ég vona að það sé nægur tími til umsagnar vegna þess að þetta er viðamikið mál og maður sér ekki allt fyrir. Það eru samtök þarna úti sem þekkja þetta fram og til baka og maður treystir í raun á að fá góða punkta og mikilvægar ábendingar frá þeim. Þannig að það er mikilvægt að umsagnartíminn sé ekki of stuttur. Hér verður eflaust mikil og fjörug umræða þegar málið kemur til 2. umr., en ég læt þetta duga í bili.