145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:50]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég hélt lengi vel ævi minnar að það yrðu ekki örlög mín að fjalla um búvörusamninga, en fyrst ég hef verið kosinn til þeirra starfa að sitja á þingi get ég ekki orða bundist eða leitt það hjá mér að fjallar um útgjöld ríkisins sem nema 0,6% af landsframleiðslu og kannski öllu nær 2% af útgjöldum fjárlaga. Það er allt stuðningur við eina atvinnugrein, landbúnað, og á hinum endanum eru þá neytendur. Ég fæ ekki séð að neytendur hafi nokkurn tímann verið kvaddir til þessa samnings, þ.e. þessi atvinnugrein er tekin undir verndarvæng ríkisins og er í rauninni bara ríkisvædd. Á fundi með forustumönnum Bændasamtaka á vegum þingflokks Sjálfstæðisflokksins var vísað til ársins 1942 þegar tekið var að greiða uppbætur til ýmissar landbúnaðarframleiðslu. Það voru kallaðar dýrtíðarráðstafanir.

Árið 1942 er kannski ekki svo merkilegt, en ef maður snýr ártalinu í 1924 er það dálítið merkilegt ár vegna þess að ég tel að á því ári hafi framleiðni í landbúnaði tapað fyrir framleiðni í sjávarútvegi og að landbúnaður hafi í rauninni átt undir högg að sækja allar götur síðan. Ég get rakið það í löngu máli, en tími minn leyfir það ekki og kannski er það efni í sérstaka umræðu því að stuðningur við landbúnað virðist vera eilífðarefni.

Ég velti fyrir mér hver hlutdeild landbúnaðarframleiðslu í landsframleiðslu sé. Þegar málið er skoðað sýnist mér að það sé nokkurn veginn það sem nemur beingreiðslunni í greininni fyrir utan örlítið í jaðargreinum, svínarækt, fuglarækt, alifuglarækt og grænmetisrækt.

Ef þetta er beinn stuðningur og skiptir ekki máli þarf náttúrlega að taka þetta mál til gagngerrar endurskoðunar. Hér hefur verið hamrað á samkeppni í greininni. Þessi grein er algjörlega utan allrar samkeppni. Hér er eitt meginfyrirtæki í mjólkuriðnaði og Samkeppniseftirlitið hefur reyndar margrætt um að samkeppnislög ættu að gilda þar eins og annars staðar. Ég er alveg sammála því. Sömuleiðis er ástæða til að spyrja eins og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir gerði áðan: Er atvinnugreinin sjálfbær? Ég held að það sé rétt að atvinnuveganefnd spyrji þeirrar spurningar í umfjöllun sinni.

Enn eitt atriðið sem kemur sjálfbærni við er beitarþol í landinu. Er þessum beingreiðslum beitt á einhvern þann veg að sauðféð éti upp landið? Gengur það gegn öðrum markmiðum um landgræðslu og uppbyggingu gróðurs á víðlendum?

Enn önnur spurning sem mér finnst ástæða til að spyrja varðar stuðning við byggð í landinu. Á einhverjum fundi sem ég sat kom fram að þegar þetta form stuðnings við landbúnaðarframleiðslu hófst hafi verið 1.700 mjólkurframleiðendur í landinu en nú eru þeir u.þ.b. 700. Þetta finnst mér eindregið benda til þess að það fyrirkomulag sem var tekið upp einhvern tímann upp úr 1990 hafi ekki leitt til stuðnings við byggð í landinu, miklu heldur að þetta hafi leitt til samþjöppunar í framleiðslu á mjólk. Vissulega er það hagræðing, en það gengur þá gegn einhverjum markmiðum sem menn hafa sett sér í þessum efnum.

Um sauðfjárræktina gildir náttúrlega miklu stærri og víðfeðmari spurning vegna þess að afkoman í greininni er alveg skelfileg samkvæmt þeim tölum sem ég hef stuðst við á undanförnum árum. Eftir að búið er að greiða breytilegan kostnað upp í laun og fjármagnskostnað eru tekjur í greininni nokkurn veginn það sem nemur beingreiðslunum. Meira er það ekki. Þegar þeir sem eru í greininni núna hætta skiptir það í rauninni ekki máli. Margoft hefur verið bent á að nýliðun í greininni er nánast alveg vonlaus. Það er vonlaust að kaupa sig inn í greinina. Áðan var nefnt að það sem skildi á milli í afkomu væri fjármagnskostnaður og kvótakaup. Kvótakaup ættu í rauninni að vera óþarfi vegna þess að andvirði beingreiðslna gengur beint til kaupa á þessum kvóta og þá er lítið annað eftir þannig að þetta skiptir ekki máli.

Enn eitt atriði sem kemur til skoðunar hér er útflutningur. Þar er ég eiginlega alveg gáttaður vegna þess að á undanförnum 90–100 árum hafa verið gerðar ótal tilraunir til útflutnings á kindakjöti og landbúnaðarafurðum og ekkert gengið, nákvæmlega ekkert. Þegar gerður var samningur um aðild Íslands að EFTA var gerð ein tilraunin og ég man ekki hvort það voru 500 eða 1.000 tonn af lambakjöti sem fylgdu með þeim samningi um fríverslun með iðnaðarvörur til að koma samningnum í gegn. Mig minnir að Noregur hafi verið gagnaðili í þeim kaupum. Þau ákvæði gengu sitt skeið. Útflutningur á landbúnaðarafurðum og útflutningur á kindakjöti til Bandaríkjanna er lítið annað en þróunaraðstoð við efnaða Bandaríkjamenn. Ég sé bara ekki ástæðu til að styrkja efnaða Bandaríkjamenn til matvælakaupa.

Það kann að vera hægt að styrkja efnaða Bandaríkjamenn til matvælakaupa á Íslandi, þ.e. selja þeim kjötið hér á veitingastöðum en það er eitt af þeim átökum, ef við getum haft fleirtölu um orðið átak, að reyna að selja túristum, þeir eru nú orðnir 1.500 þúsund, meira af lambakjöti á veitingastöðum. Ég hélt að veitingastaðir sjálfir sæju um að bjóða gestum sínum aðlaðandi mat. Þetta er 1,5 milljónir túrista. Með því að reikna hverjum túrista 200–300 grömm af kindakjöti á dag gæti þetta numið 600–900 tonnum á ári, en á liðnum árum hefur heldur verið samdráttur í lambakjötssölu þannig að það sem hefur gerst á undanförnum árum í innanlandssölu hefur ekki náð til túrista þar sem maður hefði talið að veitingahús væru að bjóða upp á einhverja sérrétti. Það er miklu frekar að túristar séu sólgnir í hvalkjöt sem er séríslensk framleiðsla og væri gott að selja sem mest innan lands í túrista, sérstaklega Bandaríkjamenn, en það er nú önnur saga.

Ég beini því eindregið til atvinnuveganefndar þar sem þetta mál kemur því miður ekki til kasta efnahags- og viðskiptanefndar, sem er hinn eðlilegi vettvangur þessa máls, að athuga hvort þessar tilraunir til útflutnings á landbúnaðarafurðum séu ekki gengnar til enda.

Menn hafa rætt um að tollar á innfluttum landbúnaðarafurðum ættu að vera sem hæstir til að vernda greinina. Það er einmitt málið, tollar hér á erlendar landbúnaðarafurðir hafa verið til þess að vernda greinina og koma í veg fyrir að íslenskir neytendur gætu notið afurða annarra landa. Ef við beittum tollum með þeim hætti á aðrar atvinnugreinar mundum við skerða lífskjör til mikilla muna. Auðvitað skerðum við lífskjör með tollum. Tollar skerða alltaf lífskjör og skiptir ekki máli hvort gagnaðilinn notar tolla eða ekki.

Í 62. gr. er fjallað um hækkun á magntollum ýmissa afurða og verður mér þar sérstaklega hugsað til undanrennudufts því að undanrennuduft er hráefni í tvær afurðir sem ég er fíkinn í, þ.e. ís, reyndar rjómaís en kann að vera að hægt sé að nota það í mjólkurís, og sömuleiðis súkkulaði. Þetta er hráefni í iðnaðarvörur og ég segi bara: Þetta eru einu hráefnin í iðnaðarvörur sem virðist vera með tollum og það tel ég verulega hættulegt. Ef þetta gengur til enda með fullum áhrifum og þessar atvinnugreinar geta ekki fengið undanrennuduft, mjólkurduft og rjómaduft á heimsmarkaðsverði verða þessar atvinnugreinar að flýja land. Það er hægt að setja upp súkkulaði- og ísverksmiðjur í öðrum löndum, Ísland er ekki eitt til þess. Enn og aftur bið ég því atvinnuveganefnd um að hugsa til þess hvort hérna sé ekki gengið gegn öllum meginmarkmiðum um iðnaðar- og atvinnuuppbyggingu í landinu.

Ég ætla að fara að stytta mál mitt, virðulegi forseti, ég á enn þá nokkuð inni, en ætla að nefna það sem var einu sinni sagt við mig þá er ég var í skóla. Þá var sagt að það væri sex sinnum meiri uppskera á hvern hektara af kartöflum í Póllandi, enda væru kartöflur í Póllandi á 85% lægra verði en á Íslandi. Þá segi ég: Til hvers er verið að rækta kartöflur á Íslandi? Þetta er nákvæmlega það sem málið snýst um, Ísland hefur ýmsa samkeppnisyfirburði í atvinnugreinum í framleiðslu og Pólland hefur sína samkeppnisyfirburði. Evrópa hefur samkeppnisyfirburði yfir Íslandi og Ísland hefur samkeppnisyfirburði á öðrum sviðum. Út á það ganga milliríkjaviðskipti. Sú vegferð sem hefur verið farin hér í 70 ár, nálgast kannski 100, hefur ekki skilað bættum lífskjörum í landbúnaði. Hún hefur ekki greitt fyrir því að byggð í sveitum hafi haldist við. Í greinargerð með nýbýlalögum 1924 er reiknað með því að nýbýlum muni fjölga um tvö í hverri sýslu á hverju ári næstu 50 árin þannig að lögbýli í landinu verði nær 7.500–8.000 árið 1975. Ég veit ekki hvað lögbýlin í landinu eru mörg í dag, þau eru sennilega einhvers staðar um og yfir 3.000, þannig að flest það sem hefur verið gert í landbúnaði á undanförnum árum hefur í rauninni ekki náð því sem stefnt var að.

Ég hef stundum velt því fyrir mér ef svipuðum greiðslum yrði beitt til þess að efla t.d. buxnaframleiðslu í landinu, buxur eru þó alltaf brúkaðar, ekki geta menn gengið buxnalausir, hvert væri þá verð á buxum, hvort við værum ekki bara nokkuð vel samkeppnishæf í buxnaframleiðslu. Af hverju er landbúnaðarframleiðsla ein tekin út en ekki buxnaframleiðsla? (JónG: Það er af því að þú étur ekki buxurnar.) Það getur vel verið að hv. þm. Jón Gunnarsson gangi buxnalaus, ég ætla ekki að hafa áhyggjur af því, en ég hef líka spurt, miðað við alla þá hollustu sem á að vera í íslenskum landbúnaðarafurðum, af hverju allir útlendingar séu ekki dauðir sem geta ekki notið þessarar íslensku framleiðslu.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra að sinni og ég vænti þess að hv. atvinnuveganefnd taki tillit til athugasemda minna og þeirra spurninga sem ég hef spurt hér.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.