145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:04]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Mig langar aðeins að spyrja út í þá breytingu sem á að gera, þ.e. að afnema kvótakerfi eða greiðslumark. Maður heyrir áhyggjur af því að þetta geti leitt til umframframleiðslu eða offramleiðslu.

Ég get alveg séð rökin fyrir því að við séum ekki með kvótakerfi, að fólk þurfi ekki að kaupa sig inn í greinina. Það er kerfi sem við notum, þegar við erum með takmarkaða auðlind eins og til dæmis í sjávarútvegi þar sem fólk þarf að kaupa kvóta ef það ætlar að fara að veiða fisk. En mjólkurframleiðsla og sauðfjárrækt, er það takmörkuð auðlind sem þarf að beita aðgangsstýringu að eða getum við treyst markaðnum, hyggjuviti framleiðenda, til að stýra framleiðslunni þannig að við séum ekki að fara að framleiða allt of mikið? Ef það gerist lækkar bara verð og þá kannski eykst neyslan. Ég hef áhuga á að heyra hvað hv. þingmaður telur, hvort hann hafi áhyggjur af þessu. Ég heyri að menn hafa miklar áhyggjur af þessu og takast á um það.

Ég vil trúa því að þetta sé rétt skref af því að nú á líka að fara að greiða með, til dæmis verða einhverjar greiðslur í nautakjötsframleiðslu sem hefur ekki verið. En ég hef kannski ekki áhyggjur af nautakjötinu vegna þess að það virðist endalaus eftirspurn eftir nautakjöti eftir því sem velmegun eykst. En telur hv. þingmaður að hér verði fjöll af kindakjöti og mjólk hent í tonnavís ef við förum úr því kvótakerfi sem við þekkjum í dag?