145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:08]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ræddi hér áðan áhyggjur mínar af því að stórhækka ætti tolla á osta og hv. þingmaður benti á, sem rétt er, að það á líka að hækka tolla á undanrennu- og mjólkurduft sem er alls ekki gott. Ég var bara í svo miklu uppnámi út af ostunum að ég tók ekki eftir þessu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort við í Bjartri framtíð getum ekki treyst á hans stuðning, því að við munum að sjálfsögðu ekki sætta okkur við að stórhækka eigi tolla á ostum.

Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson velti því fyrir sér hér áðan að það væru tollar í öllum öðrum löndum, hann spurði við hvað við værum að miða; ef við semdum við aðrar þjóðir þyrftum við að fá eitthvað á móti, einhverja tollkvóta. En ég lít þannig á að við getum ákveðið að lækka tolla án þess að fá eitthvað á móti, þ.e. geta flutt út hross eða annað á móti, ef það verður til þess að lækka verð til neytenda og auka samkeppni, það þarf ekkert að hanga á gagnkvæmum samningum.

Við búum við það í þessu pínulitla landi að vera mjög lítil með mikla tollvernd á meðan við erum með Evrópusambandið á hina höndina, 550 milljóna manna markað, sem býr við enga tolla á þessum vörum. Mér finnst óréttlátt að við séum sett í þessa stöðu. Ég vil heyra hvað hv. þingmaður segir um fyrirhugaðar hækkanir — þetta eru magntollar, sýnist mér, á þessa viðkvæmu vöru, osta og undanrennuduft — og hvort hann muni ekki leggjast í lið með okkur að koma í veg fyrir að þessar breytingar verði gerðar á búvörulögunum.