145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:54]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja að gera þá játningu að ég gat því miður ekki verið við framsögu hæstv. ráðherra sem fylgdi málinu úr hlaði, en ég tel samt mikilvægt að halda til haga nokkrum atriðum sem komu fram í þessari umræðu á þeim tíma sem ég náði að fylgjast með henni og fjalla kannski aðeins meira um það, því að mér finnst margt gott hafa komið fram frá þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni sem ég vil taka heils hugar undir en vera öðru ósammála eins og gengur.

Ég vil kannski aðeins sveigja umræðuna inn á það að við erum að fjalla um búvörusamninga sem starfsumhverfisramma fyrir eina atvinnugrein. Það er fullt af öðrum hlutum sem hafa áhrif á starfsumhverfi bænda. Lengst af bjuggu íslenskir bændur ekki við neina búvörusamninga eða búvörulög. Þá takmarkaði einfaldlega náttúran og veðurfarið umfang búskaparins á Íslandi. Aðgengi að jarðnæði er einn þáttur. Þetta eru allt saman mjög stórir þættir sem hafa áhrif á hvernig landbúnaður þróast og hvernig við getum staðið að landbúnaði í þessu landi. Ásýnd landbúnaðarins að öðru leyti hefur tekið algjörum breytingum í samræmi við aukna tækni, breytingar í samfélagi o.s.frv. Það er heldur ekkert séríslenskt fyrirbæri að gera samninga við bændur, búvörusamninga, eða undirbyggja landbúnaðarstefnu. Landbúnaðarstefna er nefnilega mjög stórt mál í flestum ríkjum sem við berum okkur saman við. Hún er misjafnlega undirbyggð. Hún innifelur alla þá þætti sem ég hef nefnt, aðgengi að landi, fjármálamarkað o.s.frv. Allt hefur þetta áhrif á landbúnaðarstefnu. Íslenskir búvörusamningar eru raunverulega samningar um tiltölulega fábreyttan landbúnað vegna þess að við flytjum inn um helming af öllum búvörum sem við neytum og notum hér á landi. Menn verða að hafa í huga þegar þeir fjalla um búvörusamningana að við erum með fábreyttan íslenskan landbúnað og við höfum ákveðið að horfa til þeirra þátta sem við höfum skapað starfsskilyrði fyrir eða skapast hafa starfsskilyrði fyrir.

Ég er hins vegar alveg sammála síðasta ræðumanni sem flutti skínandi ræðu áðan, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, við ættum náttúrlega að sækja fram og framleiða meira af þeim búvörum sem við notum hér á landi. Ég held að það sé einfaldlega þjóðhagslega skynsamlegt. Margar aðrar þjóðir nota ýmiss konar stjórnvaldsákvarðanir og stefnumótun til að undirbyggja það að landbúnaður sé stundaður í þeim ríkjum eða innan vébanda viðkomandi ríkja og menn líta á það sem ákveðinn hornstein að sjálfstæði þjóða og að halda samfélögunum virkum og saman.

Á hvítasunnudag síðastliðnum náðust t.d. samningar milli norskra stjórnvalda og norskra bænda. Við getum haft skoðanir á því hvernig á að gera þessa samninga sem við erum að fjalla um, en fyrirkomulagið í Noregi er með þeim hætti að í maímánuði á hverju einasta ári eru umræður um landbúnaðarsamninga, „jordbruksavtalen“, svo ég sletti. Það er þróað ferli. Hver ríkisstjórn og meiri hlutinn á hverjum tíma þarf að takast á við umræðuna um mótun landbúnaðarstefnu hverju sinni. Inngrip norska landbúnaðarkerfisins, af því að við köllum þetta nú kerfi, eru miklu víðtækari og miklu umfangsmeiri en við höfum þó í íslenska landbúnaðarkerfinu.

Það er rétt að segja frá því að niðurstaða samningaviðræðna á hvítasunnudag eða á sunnudaginn var var með þeim hætti að sú ríkisstjórn sem nú situr í Noregi jók verulega við stuðning við norskan landbúnað, sem var kannski ekki alveg sjálfgefið miðað við samsetningu þeirrar ríkisstjórnar og hvernig samskipti bænda hafa verið við þá ríkisstjórn á undanförnum árum. Mjög áhugaverð nálgun, en hún endurspeglar ákveðið ástand. Við höfum ekki rætt það mikið í umræðunni í dag hvaða ástand er í landbúnaðarmálum í ríkjum í kringum okkur og víðar í Evrópu. Það er mjög áhugavert að rýna í það. Ég held að það væri mjög nauðsynlegt þegar við fjöllum um búvörusamninga til næstu ára hér í þinginu að rýna hvernig komið er fyrir landbúnaði í öðrum löndum í kringum okkur. Þar hafa heldur betur orðið tíðindi því að þar hefur umhverfi landbúnaðarins í raun sveiflast til með svo öfgakenndum hætti að varla er hægt að lýsa nema með þeim orðum að það hefur orðið algjör bylting.

Fyrir nokkrum árum vorum við að fjalla um mikla eftirspurnarspennu eftir búvörum. Á árunum 2007–2008 hækkaði heimsmarkaðsverð á matvælum gríðarlega. Frá árinu 2002 til ársins 2012 tvöfaldaðist heimsmarkaðsverð á matvælum. Það hefur orðið verulegt bakslag í því vegna ýmissa aðstæðna sem hafa brotist út í heiminum, viðskiptastríð við Rússland o.s.frv., sem hafa raunverulega sett evrópska landbúnaðinn algjörlega á hliðina. Það er í því ljósi sem ber að skoða þetta innspil norskra stjórnvalda til norskra bænda núna um helgina. Menn eru að taka þéttar utan um landbúnaðinn í Noregi til þess að standa af sér þann storm sem evrópskur landbúnaður glímir við.

Evrópskur landbúnaður glímir líka við afleiðingar af því að fella niður kvótakerfi í mjólk. Það er áhugavert að skoða þá reynslu í ljósi þess að við höfðum uppi áform um að stíga það skref kannski að einhverju leyti og það er skrifað inn í þessa samninga að við viljum ganga í þá átt. Auðvitað og vonandi, segi ég, komumst við einhvern tímann á þann stað að við þurfum ekki að framleiðslustýra mjólkurframleiðslu. En veruleikinn er einfaldlega þessi: Það hefur orðið algjört afkomuhrun í mjólkurframleiðslu í Evrópu á örfáum mánuðum frá því að kvótakerfið var lagt niður. Þar spilar inn í að markaðir í Asíu og Rússlandsmarkaðir hafa lokast. Það hefur líka haft áhrif á Íslandi. Það hefur haft þau áhrif að t.d. verð á lambakjöti og öðrum búvörum sem við flytjum út hefur gefið verulega eftir. Þannig að ástand landbúnaðarmála í löndunum í kringum okkur og afkoma bænda er heilt yfir mjög alvarlegt.

Í umræðunni í dag höfum við kannski ekki horft mjög mikið á afkomu bænda. Afkoma bændanna er í þessum skilningi bara afkoma lítilla fjölskyldufyrirtækja í byggðum á Íslandi. Það verðum við alltaf að gera okkur grein fyrir þegar við tölum um búvörusamninga, við erum að tala um lítil fjölskyldufyrirtæki sem eru burðarásar í íslenskum sveitum, í íslenskum byggðum, hvort sem við tölum um landbúnaðarstefnu eða landbúnaðarkerfi. Eigum við að nefna árið 1943 þegar fyrsta stóra inngrip stjórnvalda seinni tíma var inn í starfskjör bænda? Þá samdist um á milli aðila á vinnumarkaði að stíga inn í landbúnaðinn og stýra honum til þess að ná fram sátt á vinnumarkaði, til að samningar næðust og friður skapaðist á vinnumarkaði. Þá voru stigin þau skref að stýra afkomu bænda. Síðan voru búnir til hvatar til þess að auka búvöruframleiðsluna. Við getum nefnt árið 1946 eða 1947 þar sem urðu gríðarleg átök og afkomuhrun í íslenskri bændastétt sem hafði mjög alvarlegar afleiðingar einmitt vegna þessa inngrips. En síðan líður tíminn og fram til 1980 var mikið uppbyggingarskeið. Um 1980 var orðið ljóst að við höfðum ekkert við alla þá framleiðslu sem þá lá á borðinu að gera. Það höfðu líka orðið breytingar í landbúnaðarstefnu annarra landa, þannig að grípa varð til aðgerða. Okkur ber þess vegna að skoða búvörusamningana í samhengi við þá þróun. Við erum enn að hugsa um þau markmið að byggja sveitirnar, tryggja afkomu bænda og að búvöruframleiðslan verði á því róli að skynsamlegt sé. Þess vegna held ég að það hafi verið mjög þýðingarmikið að hafa gengið þannig frá samningum nú að sjá aðeins til með niðurlagningu framleiðslustýringar í mjólkurframleiðslu. Ég held að í vinnu nefndarinnar ættum við að taka þá umræðu sérstaklega fyrir hvernig við getum séð það þróast.

Búvörusamningarnir eru líka samningar fyrir fólkið sem vinnur í afurðastöðvunum við að vinna úr búvörunni. Þegar menn tala um samkeppnisstöðu landbúnaðarins þá langar mig að varpa inn í umræðuna einfaldlega þeim staðreyndum að sauðfjárbændur, sem núna eru í miðjum sauðburði og vafalaust fáir þeirra að fylgjast með umræðum um búvörusamninga og landbúnaðarstefnu, fá lægra verð í sinn vasa á hausti komanda, og þannig hefur það verið undanfarin haust, en kollegar þeirra í löndunum í kringum okkur og jafnvel svo skiptir verulega miklu máli. En þegar við höfum gengið allan ferilinn, alla leið til neytendanna, þá fer að halla aftur á. Þetta er verkefni sem ég held að við verðum að ráðast í að greina og hvers vegna þessi staðan er komin til. Ég get nefnt líka nautakjöt til skamms tíma, þó að afurðaverð til bænda í nautakjöti hafi breyst á undanförnu mánuðum. En þegar menn eru að kalla eftir umræðu um landbúnaðarkerfið og landbúnaðarstefnuna og sleppa því að ræða um alla virðiskeðjuna og horfa einungis á búvörusamninga versus bændur án þess að gera sér í hugarlund hver kostnaðarferillinn er og hvernig kostnaðurinn verður til, finnst mér það vera mjög götótt umræða og við þyrftum að komast lengra í að fanga hana miklu betur.

Menn tala um útflutningsbætur, að við förum ekki að stíga núna þau skref í sauðfjársamningi að hér verði búnir til framleiðsluhvatar og við förum ekki að greiða með á erlenda markaði. Ég les ekki búvörusamninginn öðruvísi en svo að við séum að verða sammála um að ráðast í gildandi og gott markaðsátak fyrir íslenska búvöru, við erum ekki að fara að nota ríkissjóðspeninga til þess að greiða niður verð á lambakjöti fyrir erlendan markað. Fyrir því er enginn vilji. Við atvinnuveganefndarmenn getum vel tekið áskorunum þegar við förum að vinna með málið og ramma það enn þá betur inn, en hitt er ekki í boði í mínum huga. En við skulum þá líka gæta allrar sanngirni í þessari umræðu. Við erum á hinn veginn að tala um aukna opnun hingað til lands. Við erum að tala um lækkanir á tollum, aukið aðgangsfrelsi. Eigum við þá að biðja um að það sé enginn stuðningur á búvörunni sem flutt er hingað til lands? Eigum við að biðja um það? Erum við viss um að kjöt sem í dag er flutt inn, hvort sem það er með tollum eða tollfrjálst, njóti ekki einhvers staðar stuðnings til þess að markaðssetja á okkar markað? Við tökum auðvitað bara áskorun um þá umræðu og ég er ekki að boða að útflutningsbætur verði teknar upp, en ég held að við getum með allri sanngirni sagt að það sé vel fær leið til að girða fyrir þann misskilning. Ég ætla ekki að greiða atkvæði með því að við hefjum eitthvert útflutningsbótakerfi að nýju, því að Íslendingar voru meðal fyrstu þjóða sem lögðu slíkt kerfi af. En enn þann dag í dag er verið að stunda það að flytja búvörur út frá löndum með útflutningsbótum og við flytjum þær m.a. hingað inn til Íslands.

Í þriðja lagi vil ég nefna þau stórkostlegu tækifæri sem við eigum í framleiðsluaðstöðu okkar, okkar hreina lofti og hreina vatni og hreina landi. Við höfum tekið í gegnum tíðina mjög stórar ákvarðanir sem hamla hagkvæmni í íslenskum landbúnaði. Við höfum gert það með opin augun. Árin 1965–1970 ákváðum við að banna að nota hormóna og önnur vaxtarhvetjandi efni til að framleiða kjöt á Íslandi, sérstaklega nautakjöt. Við bönnuðum það. Það var ekki endilega með sérstökum vilja og stuðningi íslenskra bænda, en við sjáum í dag hversu dýrmætt það er fyrir okkur að hafa ákveðið þetta. Það er okkar helsta tromp í dag að hafa stigið það skref.

Árið 1985 ákváðum við að þrengja verulega að notkun á fúkkalyfjum í fóðri og banna notkun á fúkkalyfjum í fóðri. Í dag erum við með landbúnað sem notar sáralítið af sýklalyfjum og það hefur gríðarleg áhrif á lýðheilsu í landinu að hafa borið gæfu til að ákveða þetta 1985 og vinna þannig að þeirri stefnu. Mjög mikilvægt er að við höfum í huga að þessi tvö atriði eru atriði sem gera íslenska landbúnaðinn óhagkvæmari en landbúnaðinn sem við eigum síðan að keppa við.

Ég tel að næsta stóra ákvörðun í þessum efnum, ef ég má boða það, virðulegi forseti, sé að við ættum frá árinu 2020 eða fyrr, eins fljótt og mögulegt er, að leyfa ekki notkun á erfðabreyttum hráefnum í fóðurgerð á Íslandi. Mér fyndist það verðugt verkefni vegna þess að við viljum varðveita sérstöðu íslensks landbúnaðar. Samningurinn er líka samningur um það hvernig við ætlum að varðveita sérstöðu íslenskra búfjárstofna, kynbótastarfið, ráðgjafastarfið í kringum það, því að þar höfum við skyldum að gegna.

Virðulegi forseti. Ég vil enda þessa ræðu á að taka undir með hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur sem talaði í ágætri ræðu um loftslagsmálin. Ég er sammála þingmanninum um áherslurnar í þeim efnum. Ég vil líka minna á að bændur og hæstv. umhverfisráðherra hafa undirritað samkomulag um gerð vegvísis um loftslagsmál og framlag landbúnaðar til þeirra mála. Ég er algjörlega sannfærður um að þar hefur landbúnaðurinn mjög margt fram að færa. Ég tel mig vita með ágætri vissu, virðulegi forseti, að ýmislegt í búskaparháttum okkar, vegna þess að við notum fyrst og fremst gras sem fóður, gerir að verkum að okkar búfé losar minna af gróðurhúsalofttegundum en búfé í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við.